"Skynsemisstjórnmál eða trúarbrögð"

Stjórnmál líkjast trúarbrögðum all meir og trúarbrögð eru rekin sem stjórnmál.  Er nema von að ég eða almenningur skilja takmarkað það sem er verið að segja.  Hvenær fóru sögð orð að þýða annað er það sem þau sögðu? Hvenær fór túlkun að geðþótta þess sem túlkaði það sem sagt var að skipta meira máli en skoðun þess sem hafði talað máli sínu?  Já túlki nú  hver með sínu nefi.

Það er að verða erfiðara og erfiðara að koma einföldum skoðunum á framfæri. Svona grunnskoðunum á því hvað skipti aðallega máli í lífinu.  Hvað beri að setja í fyrstu sætin.

Hvert er markmið okkar með búsetu á Íslandi?  Gott líf er sjálfsagt stysta svarið.  Í góðu lífi er allt innifalið og virðist ekki þurfa umræðu við. Markmiðið það sama en leiðirnar margar eða er svo? Grunnþarfirnar eru húsaskjól, matur og góða heilsu til jafns fyrir alla.  Ekkert í núverandi bútasaumsteppi laga og reglugerða sem snúa að þessum þremur atriðum virka í dag sem félagslegt  jöfnunartæki.

Brýnt er að þeir sem eru í framboði geri sér grein fyrir því að breytinga er þörf.  Uppskurð á lagabálkum er nauðsyn sem ekki verið komist hjá.  Eða kanski þarf frekar ný líffæri og ferskara og kjarkmikið blóð.

Lífið er stutt en á 60 ára hátið Alþingis var fyrirséð að komið var í bakkgír. Skortur á raunveruleikaskyn, drengskap, fyrirhyggju og þolinmæði einkenna athafnir ríkistjórnarflokkana nú sem fyrr.   

Nauðsynlegt er að vanda vel til verks bæði í prófkjörum og svo á kosningadegi.  Eitt sem ég tel sjálfsagt fyrir næstu Alþingiskosningar er að stjórnarandstaðan komi sér saman um stefnu og gangi sameiginlega til kosninga. Með forsætisráðherraefni og ekkert nudd lengur um óbundnir til atlögu.  Enginn er óbundinn lengur nema sá ístöðulausu og hver vill hann?

 


Ekkert alls ekkert er að gerast í lækkun húsnæðiskostnaðar.

Hitti mann á götunni sem sagði; það þarf nýja 68- kynslóð  já byltingu, mótmæli og ferskar hugmyndir.  Er alveg sammála þessu það er ekkert að gerast.  Gamlar vel saltaðar hugmyndir og freðnar pólítískar klysjur fá á sig blæ fáránleikans þegar ungu frambjóðendurnir nota þær.  Allt virðist mótað í ál og óhreyfanlegt! Alþingi fær meir og meir á sig blæ afgreiðslustofnunar fyrir framkvæmdavaldið þ.e. ráðherra ríkisstjórnarinnar. 

Eins og ég hef sagt, það er ekki lengur hægt að setja plástur á gömul sár.  Það er ekki hægt endalaust að redda málum til fjögurra ára. Alþingi er ekki bráðamóttaka fyrir eldri lög sem þarf aðeins að snyrta fyrir yfirstandandi kjörtímabil.

Er ekki kominn tími til að breyta, stokka upp lög t.d. sem varða félagslega þætti og jöfnun lífsgæða hér á Íslandi?  Held því fram enn einu sinni að húsnæðismál eru í verri stöðu en áður.  Tökum vaxtabætur, húsaleigubætur og breytum í húsnæðisgreiðslur sem miða að jöfnun húsnæðiskostnaðar.  Stýrum húsnæðiskostnað fólks  þannig að hann verði ekki hærri en 25/30% af launum.  Miðað við eðlilega stærð, byggingar og/eða kaupverð íbúðar og samspil hennar við fjöskyldustærð.  Hættum þessu válega leik upp og niður með lánshlutfall, okurvexti  og tilviljunarkenndar vaxta- og húsaleigubætur. 

Afnemum eignaskatt og höfum fasteignaskatt í lágmarki af einni íbúðareign sem er til eigin afnota. Opinbergjöld af íbúðarhúsnæði sem er til atvinnuútleigu verður að endurskoða. Stimpilgjöldin verða auðvitað að hverfa.

Snúum krafta okkar að fólkinu, miðum húsnæðis(endur)greiðslur við tekjur og fjölskyldu þeirra sem nota húsnæðið og hvað eðlilegt sé (t.d. 25/30% af launum) að greitt sé fyrir öruggt húsaskjól.  

Það er sko allt önnur hlíð á málinu hvernig kaup eða bygging er fjármögnuð á íbúðarhúsnæði.  Það snýr að lánveitendum og kjör lánastofnana er bara lánveiting og bísness og hefur ekkert með félagsleg réttindi fólks að gera.  Tenging vísitölu við lán íbúðarhúsnæðis er óréttlát og félagslega vanhugsuð aðgerð. Enda samsetning hennar umdeilanleg svo ekki sé meira sagt.

Sem sagt aftengjum sambandið milli lánskjara til byggingar eða kaupa á íbúð  og kostnað leigjanda eða eiganda íbúðarinnar af henni.  Lækkum byggingarkostnað með endurskoðun á vörugjöldum og skattlagningu almennt.  Mér finnst öruggt húsnæði vera mannréttindi eins og ódýr matur og frítt heilbrigiskerfi. 

Ef 25/30% af tekjum fjöskyldu nægja til að greiða húsnæðiskosnað miðað við endurgreiddar húsnæðisgreiðslur þá er það samþykkt og viðkomandi fær í íbúðina ef ekki er hægt að verða við beiðninni verður sértæk aðstoð að vera til reiðu.  

Auðvitað verður hámarkstenging húsnæðisgreiðslna að vera til staðar.  Tekjutengd hámarks endurgreiðsla er sjálfsögð og eðlileg.

Félagslegar skyldur sveitarfélags er sjálfsögðu stór og sértæk félagsleg húsnæðisaðstoð sveitarfélags verður að vera eðlileg og fljót afgreidd.  

Ef allar aðgerðir miða að öruggi húsnæðis og eðlilegri greiðslubyrði sparast stórar fjárhæðir í samfélaginu.  Vanskilum fækkar af lánum, af húsaleigu, gjaldþrotum fækkar og vanskilakostnaður og uppboðskostnaður að ekki tala um lögfræðikostnaðinn verður hverfandi.  Allt þetta vegur vel upp í kostnað vegna breytinga.  Og svo er alltaf spurning um eðlilega stýringu skattpeninga okkar.

Þetta verður að vera gott í bili verð að hugleiða málið sjálfur :)  


Loforð á loforð ofan - ofan í gleymskuhattinn.

Kosningar nálgast og hefðbundin leikur fer í gang.  Það er magnað að alltaf leikum við með og trúum fögrum orðum hinna viljugu frambjóðenda á kosningavetri !  En stærsti hluti bláeygðra loforða kosningaaðdragandans fer í gleymskuhatt stjórnmálanna sem er geymdur vel á milli kosninga og aðeins opnaður þá.

Það hefur verið vitað í áraraðir að fasteignamatið er gjaldstofn sem á má græða.  Hækkar matið þá hækkar greiddur fasteignaskattur þó að tekið skatthlutfall sé jafnvel lækkað.  Hækkað fasteignamat og vaxtabætur til íbúðareigenda lækka eða jafnvel hverfa.  Og ekkert hefur breyst nema tala í mati hjá einhverri stofnun,  Laun eru óbreytt, lán hafa jafnvel hækkað með vísitölutengingu húsnæðislánsins og jafnvel hefur íbúðarverð á almennum markaði lækkað eða haldist óbreytt. En íbúðareigandinn borgar meira.

Íbúðamarkaðurinn fyrir leigjendur er enn frumskógur og nánast ekki til sem slíkur.  Engin áhugi er fyrir uppbyggingu hans á sem eðlilegastan máta.

Segja má að enn sé þak yfir höfuðið ekki sjálfsögð réttindi heldur svona skafmiðavinningur. 

Og bankarnir komu og fóru með lán sín vegna húsnæðiskaupa sem voru svo ekki skilyrt til þess þegar upp var staðið heldur neyslulán að miklu leyti og snéru öllu í einn hring eða svona rúmlega það.  Hvað er nú skynsamlegt við þann leik?  Lánshlutfall og vextir upp og niður og íbúðarverð steig til himins.  Og hverjir græddu? Skyldi ekki vera þeir sem lánuðu?  Og lántakandinn situr eftir með gífurlega áhættu vegna verðtryggingar lána og væntanlegan niðurgangs markaðarins.  

Matarverð hefur verið hátt frá frumbernsku kostnaðarathugunar/eftirlits.  Ekkert nýtt þar og talað hefur verið um þetta í áraraðir.  Sagt er að hlutfall af launum okkar sem fer í matarkostnað sé svona á norrænu plani og svipað og þar.  En auðvitað gleymist að við Íslendingar vinnum óeðlilega langan vinnudag fyrir þessum launum okkar. Svo þessi samanburður hlutfalls af launum verður aldrei sanngjarn fyrir neytendur á Íslandi.  Við vinnudýrkendur þessa eylands borgum einfaldlega fleiri vinnustundir en aðrir.   Talið í vinnustundum er örugglega flest allt dýrkeypt hér.  

Segja má að félagslega séum við líka að tapa vegna fjölda vinnustunda.  Frístundir okkar eru færri og þar af leiðandi erum við minna heima og sinnum minna fjöldskyldum okkar.  Allt helst þetta í hendur ekkert er "af því bara" allt tengist saman.  Einhver græðgisandi svífur yfir landið.  Við viljum  veraldleg gæði en gleymum því að þau kosta yfirleitt andleg verðmæti. 

Frambjóðendur góðir ég held að það verði að leggja til hliðar núverandi bótaendurgreiðslukerfi. Koma á greiðslu launa frá ríki til þeirra þegna sem þurfa á greiðslum að halda og eiga rétt á eðlileg laun vegna aðstæðna.  Húsnæðisgreiðslur, launagreiðslur vegna veikinda, greiðslur vegna umönnunar allt verður að vera greitt af réttlæti og auðmýkt.    Leggja verður til hliðar eða endurskoða frá grunni skattakerfið eins og það er. Tekjuskatt, fjármagnsskatt, vörugjald, þjónustugjöld þetta er frumskógur og ruglið það sama hvað sem það nú heitir. Fara í gegnum þetta allt og búa til nýjan grunn sem skiptir þjóðarkökunni réttlátt og heiðarlega.  Það eru nefnilega til peningar fyrir hamingjusömu, heilbrigðu og streituminna lífi  það er bara vitlaust gefið og sumir sem spila svindla í þokkabót.  Hættum að bæta og staga gamlar hugmyndir og búum til nýtt og heilbrigt velferðarland. 

Frambjóðendur,  komið með eðlilegar hógværar hugmyndir fyrir þessar kosningar.  Ekkert yfirboð og ekkert skítkast um hvað hinn er vitlaus.  Það ekkert áhugavert að hlusta á hvað hinn er með gatslitnar og ónýtar hugmyndir segið okkur heldur frá ykkar hugsjónum og hugmyndum/lausnum um betra Ísland fyrir alla. 


Barnið í mér roðnar.

Hlustaði á umræður á Alþing.  Svakalega eru ræðurnar fyrirsjáanlegar.  Forsætisráðherra talar eftir bókinni og mjög valdsmannlega. Stjórnarandstaðan á móti öllu og enginn ræðumaður sem hrífur hugan enda sofnaði ég.  

Úpps! Finn allt í einu fyrir þreytu gagnvart stjórnmálum eins og þau eru framreidd í dag til okkur kjósenda.  Allt svo fyrirsjáanlegt og engin glóð sést þótt vel sé gáð.  Þreyta er í þingmönnum og hvað þá kjósendum. Loforð lítið marktæk, snúið út úr flestu og hagrætt eftir á svo augljóslega á að barnið í mér roðnar.  Blygðun virðist ekki til staðar þótt grilli í heiðarleika af og til.  Enn og aftur er sameiginlegum tekjum okkar skipt eftir reglu sem heiðarlegu og grandvöru er óskiljanleg.  Af því bara er svarið sem ég fæ ef spurt er! Því engin veit afhverju þessi tregða er í kerfi sem við stjórnum sjálf.   Rosalega er ég þreyttur og svekktur á þessari fjögurra ára endurtekningu sem heita kosningar! Virðast skipta svo litlu máli allir eru svo óbundnir fyrir kosningar að engin veit hvaða stjórn kemur út úr þessum ósköpum. 

Afhverju getur stjórnarandstaðan boðið upp á skýran valkost fyrir kosningar?  Sameiginlega, líkt og í Svíþjóð hugsanlega? Ó nei, vantraust og eigingírni hvers formanns skín í gegn best að hafa þetta opið  ég gæti mist af ráðherrastóli. Óttinn við einhverskonar valdaafsal eða bara getuleysu til að vinna saman er allsráðandi.  Gott fólk búið til sameiginlegan málefnalista og vinnið svo samkvæmt því fram að kosningum. Látið sjá að þið getið og þorið semja og sameinast um málefni. 

Ég sá í Ómarsgöngunni hvað fólk er þreytt á duglausum stjórnmálamönnum.  Ég vill hugsjónir og skýra framtíðarstefnu. Ég vil að landið sé metið til móts við steinstypu og járnarusl. Ég vil eldmóð og hugrekki í forustu, gleði og jákvæða umfjöllun. Nóg er af skipulagðri niðurrífsstarfsemi allskonar!  Neikvæðnin og skítkast sem viðgengst í umræðum er niðurlægjandi fyrir þá sem taka þátt og þá sem horfa og hlusta á þessi ósköp.

Skiptum um gír og brosum framan í hvort annað! Verum jákvæð og finnum sameiginlega lausn þar sem við sýnum okkur og landi okkar þann sóma sem við eigum skilið. Hættum þessa hvabbi og leiðinda hroka sem sést æ oftar í umræðunni.

Og eitt enn fréttafólk má alveg vera betur undirbúið þegar rætt er við frambjóðendur og aðra í fjölmiðlum.  Vanþekking spyrjenda skapar ójafnvægi í umræðunni og skilar engu!!!

Vonandi tekst okkar sameiginlega að breyta og laga til hjá hverjum og einum okkar. Þannig að allir verði bara einfaldlega flottir.  


Lífshættuleg leið stjórnarinnar í nafni "hagsældar".

Ég gekk með Ómari Ragnarssyni og hinum óánægðu niður Laugaveginn.  Það var góð tilfinning að vera þáttakandi í að senda þessi skýru skilaboð til Alþingis og ríkisstjórnar.  Stöðvið græðgisvæðingu samfélagsins! Hættið að eyðileggja í nafni hagstjórnar og hagsældar! Hættið að vera með rörasýn á einfaldar en sjálfeyðandi skyndileiðir! 

 Hugleysi og ótti við að fara nýjar leiðir til velmegunar er hægt og af öryggi að drepa frumhvatir okkar. Án breytinga staðnar allt hægt og hljótt og deyr. Þroskinn stöðvast og gleðin hverfur oft fyrir þessa sk. hagsæld.  Ég er alltaf að bíða eftir að einhver þori að fara nýja leið að markmiði okkar allra, fullnægðu og gleðilegu lífi.

En án þess að byrja á grunnþörfum okkar mat og húsnæði er grunnurinn byggður á sandi.  Og þar virðist algjör skortur á hugrekki ríkja. Þrystihópar hafa enn hreðjutök á valdhafa. Ljóst hefur verið í áratugi að matur er af sjálfssköpun ofurdýr.  Ljóst er að húsnæðismál eru enn eina ferðina af þröngsýni óleyst.  Byrja verður á því að ákveða hvað við viljum. Svo finna lausnina og framkvæma! Þannig mun þetta ganga upp,  hægt og rólega verða að réttu leið okkar til innri hagsældar og ytri. Ég er sannfærður um að núverandi aðferðir okkar eru mun dýrari fyrir samfélagið. Við höfum í raun ekki hugmynd um hvað þessi heigulsstjórnunaraðferð  er að kosta í peningum hvað þá jafnvel í mannslífum.  Og  óbeinn kostnaður fólks sem vinnur óeðlilega og óþarflega langan vinnudag er ómælanlegur veikindi öll sem fylgja líkamleg sem andleg.

Að vera öðruvísi og fara sína leið af sannfæringu er ekki farsæl leið í stjórnmálum.  Af einhverjum ástæðum er lýðræðinu fyrir borð borið á Alþingi.  Nánast hlægilegt að greiða atkvæði! Meirihlutavaldið er algjörisvald.  Vald þetta er svo fært beint til framkvæmdavaldsins eða ríkistjórnarinnar! Við Íslendinar höfum áhrif á fjögurra ára fresti og búið. 

Það sárvantar einhver tæki til áhrifa á milli kosninga.  Breytt vinnubrögð á Alþingi, þjóðaratkvæðagreiðslur og þriskipting valdsins verður í raun að vera til staðar.  Mér sundlar við að sjá algjört vald ráðherra og hroka þann sem verður smátt og smátt til.   Vald sem er í raun án ábyrgðar!!  Engin finnst þegar um ábyrgð er rætt.  Það er súld og þoka yfir valdhöfum okkar í dag.

a.  lækkið matarverðið núna og leysið hagsmunamál bænda farsællega um leið. þetta er hægt!

b.  komið á húsnæðisgreiðslum til eigenda/leigjenda íbúða með með það að markmiði að hámark húsnæðiskostnaðar sé 25% af tekjum miðað við eðlilegt verð og stærð íbúðar.

c.  öll fornarstarfsemi og fræðsla um áfengi, kynlíf og menningu sem kemur erlendis frá er einfaldlega ekki viðundandi að neinu leyti eins og hún er í dag. 

d.  breytið starfsaðferðum Alþingis, ráðherra og dómsvalds.

e  skiljum að ríki og kirkju.

f.  hvalveiðar eru tómt mál og gamaldags þjóðarrembingur. 

g.  endurskoðið skattaumhverfið núna!  t.d. fjármagnstekjuskatt og tekjuskatt.   

h.  tryggið öllum eðlilega lágmarks mannsæmandi tekjur öryrki, aldraður eða annað skiptir engu.

i.  lífsleikni á skylduskrá fyrir alla. við kunnum almennt séð ekki á lífið. 

Listinn getur verið óendanlega langur en góðir stjórnendur víkkið sjóndeildarhringinn opnað hjartað og farið að stjórna.  Hugrekki þarf til að vera öðruvísi og fylgja sannfæringu sinni.  Ekki láta hópþrysting og þingsæti eða annað blinda ykkur.  

Ég hef heyrt og skynjað hroka í svörum fólks í ráðandi flokkum að undanförnu.  Fyrir mig er svo augljóst hvað gert er;  fyrst er fundin niðurstaða svo leitað að leiðinni þangað,  framkvæmt  og eftir á er hugsað um hvert þetta muni í sanni leiða okkur.  Ekki farsæl aðferð finnst mér.  

Hættið þessu brölti góðir leiðtogar sem leiðir aðeins til vansældar og farið nýjar leiðir að hamingju og farsæld.  Þótt dregið sé í dilka á fjögurra ára fresti má alltaf standa aftur upp og skipta um íverustað hugmyndar og framkvæmdar.  

 Að hlusta á ráðamenn réttlæta vitleysur sínar án sannfæringakrafts og trú á það sem þeir eru að segja er niðurlægjandi fyrir alla skynsama Íslendinga. Viðurkennið mistökin og byrjið aftur að skipti kökunni okkar af hugsjón og kærleika.  Allir mega fá rjóma með kökunni ekki bara þeir sem eru ykkur þóknanlegir. 

 


"Ég geng í hring"

 

Steinn Steinarr er í fyrirsögninni svo eitthvað huglætt hlýtur að koma eftir slikan inngang?  Er að hugleiða þessa stundina að 358 dagar eru eftir af mínu næsta afmælisári.  Og ætla ég að ganga í hring í kringum allt sem er og innan þessa hrings er veröld "þín" og aðeins horfa inn um gluggan á lífið?  Er  hugsa um skrifa af og til um framgang eða afturgang minn þessa nefndu daga.  

Hvað vil ég svo að verði úr mér?  Venjulegur maður,  óvenjulegur gaur eða kanski ég leiti að mér?  Í bókinni sem ég les á morgnana stendur m.a. " Áætlun mín fyrir þig er fullkomin og mun ganga upp á nákvæmlega réttum tíma.  Vertu ekki óþólinmóður, lærðu að bíða allt á sér rétta stund.  Hræðstu ekkert en vertu sterkur og hugrakkur. Haltu áfram í algjöru trausti og trú og leyfðu undrum mínum að koma í ljós."  

Ég veit að þessi venjulegi ég býr innra með mér og ég finn hann í algjöri hugarró og innra friði.   En ég efast sífellt og óttinn við breytingar er eða hefur verið öllu yfirsterkari.  Hvernig öðlast ég kjark til að brjótast út úr viðjum vanans og lærðrar hegðunar og leita inn í leyndardóm þann er býr innra með mér?   Ég er orðinn vanur að vera það sem ég held að hver stund og hver viðmælandi vilji að ég sé!  Ég er gjörsamlega týndur og orka mín fer í að lesa hugsanir annarra og vita alltaf hvað þau hugsa og haga mér svo eins og ég held að þau vilji!!  Líf mitt hefur verið hrunadans í leit að viðurkenningu og samþykki.  Líf mitt hefur verið held ég allt nema mitt!  Kannast einhver við þetta?

Næstu 358 dagar verða smaladagar mínir.  Dagar sem ég vil nota í að finna bitana í púsluspil lífs míns og raða saman eins vel og ég get. Mér er það eflaust til happs að ég trúi að til sé kraftur máttugri mínum vilja.  Annað væri alheimsmet í hroka!  Minn vilji leiddi mig hingað að tölvunni í leit að sjálfum mér. Í bæninni finn ég að það losnar um eigingirni mína og óttinn við lífið minnkar.  Afhverju er ég þá ekki duglegri í bæn og hugleiðslu?  Ég er enn að reyna að stjórnast í öllu og lítið hefur áorkast.  Afleiðingin af mér sem forstjóra lífs míns er sjálfskipuð útlegð frá flestu sem mér þykir vænst um.  Það er nefnilega erfiðast að eiga við fólk sem er ekki sama!! Og ég get ekkert í vanmætti mínum nema lokað mig frá öllu og öllum.  Sjálfskipuð konungleg einsemd er afleiðingin af mér í forsæti. 

Þá er komið að því að taka skrefið og láta gossast inn í óvissuna.  Ég finn það ef ég gef mér tíma og leita inn í kyrrðina þá koma önnur svör en ég átti von á.  Svör sem eru frá mér en samt frá krafti máttugri minum vilja.  Svör sem koma  innst úr fylgsnum mínum sem voru harðlæst  en bænin hefur opnað rifu og hleypt smá út.  Verð alltaf hræddur fyrst því ekki eru þetta mínar hugmyndir um öruggt líf í ró og næði.  Nei svörin eru áskorun og krefjast hugrekkis og breytinga frá mínum hugmyndum. Í hugarró og innri kyrrð býr þessi maður sem ég get verið og verð ef ég sleppi og treysti þessi svörum frá minum æðra innri mætti.  

 Kærleikurinn er sterkasta afl sem til er.  Og ekkert hræðir meira en hann. Hann krefst umburðarlyndis og auðmýktar og framkvæmdar í hans nafni.  Hugsið ykkur ef kærleikurinn væri alþjóðlega tungumál okkar.  Hugsið ykkur ef við segðum stundum hver er minn þáttur í þessu ástandi sem er í heiminum.  Ekkert gerist svona af því bara.  Allt á sér upphaf og alltaf þarf tvo í tangó.  Hver er sök okkar á hryðjuverkum þeim sem eru framkvæmd?  Hver er þáttur okkur í fátækt og neyð um allann heim nema rétt hér á okkar eigin bletti?  Svörum þessu með leit inn á við í kærleika og hugarró.  Framkvæmum svo og ég er viss um að eigingirni okkar og sjálfshyggja minnkar stórlega.  Því svarið frá okkar innri vitund er alltaf elskið alla eins og ykkur sjálf og veitið öllum það sem þið sjálf teljið grunnþarfir í mannlegum og kærleiksríkum heimi.

Leiðin er einföld og vegurinn breiður en samt svo erfitt að finna hana.  Kærleikurinn er vegvísirinn og ef við spyrjum einhvern okkur æðri um leið og fylgjum leiðbeiningum er ferðin hafinn og engin veit hvert stefnt er.  

Ég ætla út í daginn og sjá hvað ég finn ef ég treysti og trúi og geng í vissu um að kærleikurinn er fylgissveinn minn.    


Lífsklukkan tifar hægt og hljótt áfram?

Allt heldur áfram einhvernveginn og líklega vonlaust að stöðva framrás timans.  Hef reynt það og gékk hálfílla!

Sumarið hefur verið! Eiginlega það,  já bara verið.  Móðursystir mín frá Stockhólmi kom í heimsókn.  Höfum ekki hist í átta ár.  Þegar hún kom út um hlíðið í Keflavík og gékk til mín fann ég að timinn hafði stöðvast. Átta ára aðskilnaður hvarf! Það var eins og við hefðum hist í gær - lífið er skrítið en svo gott stundum.  Hún er síðasta tengingin mín við fjölskyldu mömmu.  Sterkar minningar tengja okkur órjúfanlegum böndum.

Fórum m.a. til Akureyrar þar sem mamma og pabbi hvíla í kirkjugarðinum að Höfða. Áttum góða stund þar með bróður mínum og fórum svo í hvítlaukssteiktar gellur á Bautanum.  Þarna á miðbrekkunni var líf okkar til margra ára og minningarnar góðar.  Einhvern veginn er orðið auðveldara að minnast og sjá lífið eins og það var.  Góðar minningar um daga gelgjuáranna.  

Hitti konu um daginn sem sagði "Percy mannstu þegar" og ég man allt í einu sameiginlegt atvik fyrir norðan og hló,  þetta var skemmtilegt.  Sögur og aftur sögur sem brúa bilið milli nútíðar og þess sem var.  Ótrúlegt hvað kemst fyrir í þessu augnabliki!  Því þetta er eins og lítið brot úr ævi minni en samt fullt af miklu lífi.  Elska að rifja upp þennan tíma og sjá hvað allt hefur breyst en samt ekki.  Því á bakvið andleysi nútímans og hraða er þessi sama þrá og var!  Þrá eftir kærleika og athygli.  Þrá eftir að skipta máli að tilheyra.  

Ekkert hefur í raun breyst allt er við það sama og lífið tífar áfram eins og áður.  Og ef ég gæti mín ekki missi ég af lífinu ámeðan ég er að bíða eftir því.

Mér finnst gott að hægt og rólega vera til í deginum í dag.  Vanda mig og sýna umburðarlyndi og gæsku í návist annarra.  Það er yfirleitt gott að vera til en mér hættir til að gleyma því.  Ég þarf áminningu eins og aðrir!  

Ekkert skrítið að stofna eigi flokk innflytjenda!  Eðlileg afleiðing sinnuleysis okkar á því sviði sem og  öðrum.  Erum svolítið að fljóta sofandi að feigðarósi.  En tími er enn til að stöðva þessa framrás græðginnar og afskiptaleysis.  Tökum saman höndum og  sýnum kærleika í verki en ekki bara á borði.   Gerum eitthvað þvi lífið tifar áfram og áfram og allt í einu er dagurinn í dag orðinn að gærdeginum. 

Hver við erum, hvað við erum eða hver er trú okkar er mál mitt sem einstaklings.  Ég virði þig og þú mig? Kaup kaups annars verður klessa og átök.  Umburðarlyndi og kærleikur er það sem skiptir öllu.  


Hamingjan býr í næstu götu?

Sem barn spáði ég aldrei í hvað yrði um næstu árin hvað þá hvernig verður morgundagurinn.  Morgundagurinn var svo langt í burtu og var hulin ráðgáta.  Veit ekki hvenær morgundagurinn fór að skipta meira máli en dagurinn í dag.  Veit ekki hvenær ég fór að missa af núinu vegna hugsana um hvað mundi gerast á morgun.  Það er eiginlega skrítið að vita þetta ekki!  Furðulegt að muna ekki hvenær ég hætti að vera til.  Hvaða fyrirbæri var það sem kom þessu af stað. Hvað gerði mig ósýnilegan og nánast að engu í samfélagi sem ég lifði í eða átti að vera til í ? 

Á barnsárunum bjó hamingjan heima hjá mér var bara þar sem ég var.  Ég lék mér, stökk yfir skurði eða var í boltaleikjum. Allt var svo einfalt þar til hamingjan flutti í næstu götu!  Já hvernig var þetta? Hvenær fór ég að vera myrkfælinn? Hvenær gerðist það að hamingjan bara flutti í burti frá mér? 

Ég man enn einn morgun í lífi mínu sem barn þegar ég og bróðir minn fengum mjólk og brauð í nesti og lögðum í ferðalag út í óvissuna.  Allt var svo ævintýranlega stórt og allt svo spennandi.  Við fórum yfir girðinguna hinum meginn við götuna.  Öðru megin var grísaból sem skrítin lykt kom frá og hávær öskur.  Samt var alltaf gaman að hanga á girðingunni og horfa á svínin rúlla og leika sér í drullunni.  Svínin virtust svo geðveikt frjáls og líf þeirra svo einfalt þarna í drullupollinum. 

Ég og litli bróðir röltum í aðra átt í suðaustur frá grísabólinu.  Við okkur blasti tún, hestar og hús sem voru að hruni komin enda úr afgangstimbri og gömlu ryðguðu bárujárni.

Hestarnir litu upp og kinkuðu kolli til okkar.   Nokkrar kýr horfðu á okkur stórum alltaf smá hissa augum en kindurnar tóku á sprett.  Við gengum áfram í háu óslegnu grasinu, stukkum yfir nokkra illfæra skurði af leikni en samt í smá spennukasti.  Hvað ef ég næði ekki yfir en ég var léttur og flaug alltaf yfir.  Bróðir minn var seinni í svifum og hikaði oftar og reyndi að finna aðra leið en svifleiðina. Fjöllin voru allt í einu svo stór og svo nálægt.  Mér brá vorum við ekki komnir heldur langt að heiman?  Bóndabær birtist allt í einu og mér fannst ég kominn inn á gafl hjá ókunnu fólki.  Stóðum eins og boðflennur á hlaðinu,  snérum við og fórum aðra leið.  Röltum áfram og gamall maður kallaði á okkur hálf tannlaust brosið hans var svo furðulegt en skringilega fallegt.  Blessaðir drengir á hvaða leið eruð þið spurði hann?  Ég svaraði engu leit niður og flytti mér áfram.  Seinni vissi ég að þetta var góður karl sem bjó þarna efra og lifði bara sínu lífi.  Sæll með sitt held ég en alltaf kallaður nöfnum og talinn skrítinn svona af þeim sem voru ofan í daglega brauðstritinu og höfðu engan tíma til að stökkva yfir skurði.  

Við bróðir minn fórum að finna fyrir þreytu og settumst niður í sólinni.  Það var alltaf sól á þessum árum bernsku minnar - alltaf heiður himinn.  Sat þarna og veit núna að allt var svo allveg allt í lagi.  Ekkert sem truflaði ekkert sem hræddi eða angraði okkur.  Samt var ekki tómatilfinning!  Það var bara allt í lagi, lífið bara var, og mér leið vel.  Sagði við litla bróður að við skyldum labba aðeins lengra nær gamla stökkpallinum og fá okkur nesti þar.  Framhjá stóra bænum og inn í litla skógin í lægðinni.  Við gengum áfram aðframkomnir af þreytu í fótunum.  Fjallið fyrir ofan sem er bæjarprýði virtist ógnvekjandi hátt og allt í einu fannst mér ég vera villtur.  Settist nær litla bróður mínum og leit á hann.  Hann var hinn ánægðasti með snúð og mjólk og ekkert villtur að sjá.  Ég sagði, klárum nestið og förum heim.  Hann var oft sá sem róaði mig án þess að vita það var hjarta mitt og hugrekki mitt.  

Ferðin heim tók rosa langan tíma en heim komumst við.  Gengum inn í þvottahúsið og ég kallaði á mömmu sem leit fram til okkar. Allt var í lagi.  Þetta ferðalag okkar bræðranna er langt og spennandi í minningu minni.  En var í raun styttra og allt öðruvísi veit ég í dag.

Leið okkar hafði legið um stór og villt tún minninganna sem í dag eru byggð af stórum steypukössum og rúmum fjörtíu árum seinna er þetta ekki nema yfir fjórar götur að fara.  

Hestarnir, kýrnar og kindurnar farnar og blikkbeljur með hestöflin undir húddinu og gamli maðurinn farinn frá okkur.  Hann er nú lánsamur að hafa misst af þessum skæruliðum sem fóru með eldibrandi menningarinnar yfir tún og engi og rændu okkur grasið og frið himinins.  Heppinn að hafa misst af því að vera rændur ró sinni og hamingju af nútímanum.  En ég verð að finna nýja leið að hamingju minni - mitt ferðalag liggur inn á við í ró hugans og innri hamingju.  Hamingjan býr nefnilega ekki í næstu götu heldur innra með sjálfum mér.   


"Eins og þú sáir munt þú uppskera" Framsókn og Siv Friðleifsdóttir!

Kosningarnar búnar og allt er hljótt aftur.  Eina kippinn sem ég tók var þegar ég hélt að frjálslyndir ætluðu að semja við sjálfstæðisfólkið!  En það leið hjá sem betur fer og allt varð aftur eins og það var og á að vera? 

Menning eða ekki allaveganna eru stjórnmál eitt af mörgu sem snýr lifshjól mitt.  Þó ég skilji ekki alltaf - ísmann sem er í gangi þá fær það mig til að hugsa.  Og furða mig og ég hætti aldrei að verða hissa !!

"Allt sem gerist í lífinu er vegna þess sem er í vitund þinni. Lyftu vitundinni og þú lyftir allri tilveru þinni og viðhorfi til lífsins. - Barnsleg og að því er virðist einföld  mannvera á léttara með að taka við guðsríki en hin greindasta sem heldur að hún þekki öll svör með huganum." E.C.

Svo satt sem þetta er skrifað!  Listin að lifa er í raun svo einföld.  Sleppa takinu og láta sig gossa inn í það!  Úpps er það bara þannig? Held það, vandinn er að við hugsum of mikið -Og lifum of lítið og erum sjaldnast í augnablikinu heldur einhversstaðar allt annarsstaðar. 

Framsókn gerir lífið skemmtilegra.  En lítið skil ég í fréttaflutningi og sögusögnum um framsóknarheiminn! Ætti að vera einfalt að leiðrétta skekkjuna frá því um árið.  Þegar nýr maður sveiflaði sér inn á þing og í ráðherrastól og flokkurinn fór að hallast ískyggilega.  Svo fór hann í annað starf í musteri mammons.  Svipað og annar sem nú er talað um að komi aftur inn og lagi hallann.  Hvað með sjálfsvirðingu og blessaðan trúverðugleikan?  Hvert fór virðing flokksins fyrir kjósendum?  Enda uppskeran rýr! 

Hvað er að fólki?  Lausnin hlýtur að liggja innan flokksins alveg eins og vandinn.  Og lausnin er Siv Friðleifsdóttir - einfalt og þessvegna þarf þor til að gera rétt og fylgja hjartanu.   

Trúverðugleika, greind og dugnað í flottu ívafi með kjörþokka hvað viljið þið meira? En nóg um þetta vonandi ber flokknum gæfu og kjark til að velja rétt.

Það er að koma sumar smátt og smátt og mannlífið verður bjartara. Það eina sem háir okkur er heimatilbúinn tímaskortur.  Vinnuþrælkun hugans og bull eins og að vinnan göfgi manninn er sáð í okkur við fæðingu.  En allt hefur sína kosti en líka galla og okkur væri nær að skoða galla okkar og breyta þeim í kosti.  Lífið verður svo óumbærilega auðveldara þannig.  

Stundum virðist allt vera að versna í kringum okkur.  En við verðum að ná þráhyggju hugans úr okkur. Græðgin, hatrið,  öfundin og eigingirnin hreinsast ekki burt fyrr en það kemur upp á yfirborðið þannig er það með öll kýli - stinga verður á þau.  Lífið er þannig líka  og ég vil ekki flækjast inn í þessa ringulreið lengur.  Ætla mína leið sem núna er ekki þessi venjulega útgengna leið vanans og óttans. 

Segi hér með upp og held mína leið! Góða og gleðilega Hvítasunnuhelgi.................................. 

 


Hugarró og kyrrð sameinar okkur.

Það er sterk upplifun að hugleiða og/eða biðja og finna að það gerist eitthvað!  Og ekki vita hvernig eða afhverju heldur lofa því að vera.  Hugarró kemur er ég vel kyrrðina framyfir hraða og streitu.  Trúarbrögð er ávallt deilt um.  En ef við leitum lengra inn í kyrrðina þá hittast öll trúarbrögðin í það góða í kærleikanum.  

En í raun er verið að deila um ekki neitt! Valdabarátta fárra sem mynda hræðslubandalag um að útskúfa einn hóp og sameina fólk í kringum það.

 Deilt um ákaflega litla hlut? Trú eða stjórnmál?  Breytir litlu því manneskjan er á bakvið allt.  Með kosti sína og galla.    Öldugangur um hégóma of lítið rætt um hugsjónir, tilgang og markmið því þá verður að fara dýpra "kafa".  Sérstaklega á þetta við í sveitarstjórnarkosningum.   Allt svo nálægt hinu daglega lífi kjósenda.  Samt eins og ekki megi breyta neinu sem skiptir máli.

Mislæg eða hjálæg gatnamót er afleiðing óstjórnar fyrri tíma. Öll sérbýlisvæðingin fyrir alla aldurshópa er afleiðing fyrri óstjórnar. Öll mengunin og svifryk sl. vetrars allt afleiðing fyrri óstrjórnar.  Að halda áfram vitleysunni er leið flestra flokkana í framboði.  Engin vill í raun takast á við grunn breytingar.  Satt að segja held ég að engin þori! 

Það þarf hugrekki og trú á sjálfan sig og kjósendur til að þora að raska ró þeirra sem sofa í grunninum.  Þeirra sem eru hræddir við allar breytingar.  

Ég er ekki bjartsýnn á að breytingar verði gagngerar eftir þessar kosningar.  Til þess er of mikill ótti við grunnbreytingar.  Það verður áfram lagað til á yfirborðinu og undiröldunni lægt. Svo verður vandanum ýtt yfir á næstu kynslóð.  

 Of fáir eru í hugarró og kyrrð innra með sér.  Of fáir "nenna" að taka á því sem þarf að gera í grunninum.  Of margir vilja bara rúlla þessu áfram og snyrta í beðunum!  Trúin á þá sem eru í framboði og trúin á að atkvæði mitt skipti máli er mjög takmörkuð.  Og þannig er það með flesta kjósendur held ég!  

Einhver sjálfvirkni er í gangi sem erfitt er að breyta.  En ég kýs því það er samt leið til einhverra áhrifa.  Ég kýs þessvegna er ég eða var það ég trúi þessvegna er ég??

Gleðilegan kosningadag.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband