Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Getulaus, hættuleg loftbólustjórnmál?

Hvað skal almennt segja um stöðuna á Alþingi og í rikisstjórn.  Lítt hugsað (vonandi) lygilega mikið og óábyrgt bull fær að birtast og heyrast sem gerir það að verkum að í stað þess að byggja upp von og trú verður fólk vonlítið og sljótt.  Fyrst fullkomlega lamað af vantrú á það sem er skrifað og sagt en svo fær reiðin greiða leið og aðeins spurning um timasetningu nýrrar byltingar fólksins á Austurvelli. 

Er ekki að segja að allt hafi verið gott hjá fyrri ríkisstjórn eiginlega langur vegur þangað.  En tímar voru aðrir þá og á fyrstu augnablikum hennar önnur mikilvæg verkefni í gangi. 

Í dag er þó eitt yfirgengilega mest áberandi og það er hversu hættulega og lygilega "klaufalega" er stjórnað svo ekki sé meira sagt.  

Vanþekking og samskiptagetuleysi er aðalvandinn og og illa er skipað í ríkistjórn.  Oftast leita ráðherrar eftir aðstoð hjá aðilum með sömu skoðanir því ekki má rugga bátnum og gera ráðherra óöruggann með sínar "eigin" hugmyndir.

Getuleysi til einlægra og trúverðuga samskipta er algjört! Hverju á að trúa þegar vanmáttur og þekkingarleysi skín í gegnum flest sem sagt er.  

Ágætu ráðherrar talið við okkur! Treystið dómgreind okkar og hvað þá fólksins sem kaus ykkur! Ótti ykkar við þjóðaratkvæðagreiðslu er  niðurlægjandi fyrir ykkur! Ef ástæðan er ótti við að niðurstaðan verði ekki ykkur í hag og verða að framfylgja þeirra niðurstöðu eruð þið í röngu starfi á röngum stað. Segið af ykkur ef svo er. 


mbl.is Erfiðara fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hljótt er læðst um völundarhús stjórnmálanna.

Er það bara ég? Eða eru fleiri að upplifa þögn í kringum ríkisstjórn og Alþingi. Virðist eins og ekkert sé að gerast og að með þögn, aðgerðarleysi og án framtíðarsýnar eigi að fara í gegnum þetta kjörtimabil. Framhjá aðgerðum og loforðum.

Ef þau eru spurð er svarið,  þetta er í farveginum með öllu sem við lofuðum. Reynsluleysi ráðherra hefur sjálfsagt sitt að segja og eðlilegt að reynslulausir ráðherrar ráði sem flesta aðstoðarmenn. En fjöldi aðstoðarmanna skapar aðeins falskt öryggi.  Enda flest því miður reynslulítil eins og herrafólk þeirra í ráðuneytunum. Við þetta bætist svo að stór hluti þingmanna er nýr eða nýlegur og þetta reynsluleysi skapar einnig þögn og aðgerðarleysi.  

Áhugaleysi Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, Dagblaðsins og netmiðla á stjórnmál og ákvörðunar- og aðgerðarleysi ráðherra  er áberandi. Engin rannsakandi blaðamennska er í gangi. Málum er ekki fylgt eftir og yfirleitt nóg að lesa fyrirsagnir því ekkert kemur þar á eftir. Því miður er góð blaðamennska sjaldgæf orðið og all mikið um ungt og reynslulítið blaða- og fréttafólk að ræða.

Eftir að hafa og vera enn að draga tilbaka ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar er eins og tómarúm fylgi og ekkert gerist meira.  Það er eins og með ákvörðun um afturhvarf til fortíðar sé rikisstjórnin að skapa sér andrými til að gera ekki neitt nema skapa þetta tóma rúm til að lífa eigin lífi í “frið og ró”.

Bankar og lánastofnanir fá að fara sínar leiðir og að þeirra mati er Hæstiréttur Íslands “djók”.  Skattar landsmanna eiga sér sitt eigið háglaunaverndandi líf.  Verkalýðsfélög og samtök atvinnulífsins lifa í fortíðarhyggju og vilja engu breyta.  Gamla húsnæðiseignarstefnan er ríkjandi þrátt fyrir að hafa fyrir löngu sannað getuleysi sitt til að búa landsmönnum öruggt húsaskjól. Úrellt stefna ríkir varðandi virðisaukaskattinn og hvernig hann stýrir neyslu okkar og greiðslugetu. Gamaldags bótakerfi fær að vera óáreitt og skapa ójafnvægi, óréttlæti og óánægju. Og enn á stóriðja að bjarga öllu þrátt fyrir uppgang í nýsköpun og hjá smærri fyrirtækjum.

Ég e r sannfærður um að með heildar endurskoðun á stjórnmálaumhverfinu er hægt að skapa betra og réttlátara samfélag. Peningurinn er til!  En virðist falla milli skips og bryggja og fljóta þaðan í margar vanhugsaðar áttir.  Það er líka að koma í ljós sem Eva Jolin sagði,  að erfitt muni reynast að koma þeim sem stóðu fyrir hrunið mikla til ábyrgðar og rétta yfir þeim. Þetta veldur líka uppgjöf og skapar áhugaleysi hjá fólki.  

Almennt og að meðaltali hefur margt batnað að mati stjórnarinnar og sjálfsagt er að meðaltali margt til í því.  En hver lifir sínu lífi í meðaltalinu?  Þekki engan sem er staddur í landi meðaltalsins. Flestir eru allstaðar í kringum það stærsti hópurinn  neðan við og einhverjir talsvert ofan við hið elskaða meðaltal stjórnmálanna. Því miður samþykkjum við í þokkabót lög og reglur oftar en ekki að teknu miklu tilliti til þetta meðaltalsfólk.  

Þjóðin gefst upp í þessu umhverfi og hverfur líka  inn í tómarúm aðgerðarleysis.  Ekkert mótmælt og uppgjöf liggur í loftinu. Breytum þessu og látum rödd okkar heyrast hátt og snjallt allstaðar þar sem það á við. 

Gefumst ekki upp!  


Að flýja raunveruleikann?

Stundum reynum við um of jafnvel án þess að gera okkur grein fyrir því að stjórna aðstæðum og fólki í kringum okkur. Oft erum við svo hrædd við höfnun að við höfnum staðreyndum sem sitja á nefbroddinum.  Við erum fullkomlega ófær um að greina á millli,  sjá og viðurkenna að hugmyndum okkar en ekki okkur persónulega hefur verið hafnað. Kannast svo við þetta að hafa tekið öllu persónulega að geta ekki skilið á milli hugmynda minna og mig sem einstaklingi/manneskju. Var eiginlega ófær um heiðarleg og opin mannleg samskipti. Alltaf í hlutverki þess ósæranlega og skilningsgóða.  

Borgarfulltrúinn er hér spurður eftirfarandi og svarar "Hvað finnst Kjartani um að landsbyggðarmaður hafi sigrað í prófkjörinu í höfuðborginni?  ...  Ég hef ekkert nema gott um hann að segja...... lít ekki á sigur hans sem dóm yfir störfum þeirra borgarfulltrúa sem buðu sig fram í efstu sæti listans."

Ég fæ ekki séð að Kjartan hafi svarað spurningunni nema að hluta?  Af ótta við að særa sigurvegarann er fyrst talað um ágæti hans og svo til að hafna ekki sjálfum sér er staðreyndum snúið á hvolf.  Sýnist þetta vera dæmigert svar þess meðvirka sem sér allstaðar persónulega höfnun. 

Auðvitað er vera að hafna vinnu núverandi borgarfulltrúa með þessari niðurstöðu.  Vinnu þeirra og hugmyndum en ekki persónum.   Það er gott að viðurkenna staðreyndir skoða þær og athuga hverju ég þarf að endurskoða miðað við niðurstöðuna.  Hvað eru kjósendur að segja með t.d. að sitja flestir heima?  Ætti ég miðað við þetta að breyta um farveg fara nýja leið eða jafnvel hætta?

Þau sem vildu alvöru breytingar lentu í neðstu sætum! Og þau sem lentu í neðstu sætum voru konur! Er þetta allt tilviljun eða stefna Sjálfstæðisflokksins?  

Margt þarf að skoða þegar utan að komandi getur gengið inn og sigrað sitjandi borgarfulltrúa. 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Ekki dómur yfir borgarfulltrúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífelld endurtekin vitleysa og trúað að ný vitleysa verði betri.

Stjórnmálaflokkarnir, stéttarfélögin og hinn almenni kjósandi með skaðlegri þolinmæði sinni hafa staðið sig með ólíkindum illa! Áratugum saman hefur ríkt stjórnleysi falið í fagurgala og ofurstjórnun og bönnum. Alltaf er spólað í gömlum djúpum hjólförum og ekki komist upp úr þeim. Við erum föst í óraunsæjum hugsunum og lifum í einhverskonar draumi sem aldrei verður að veruleika. Vegna getuleysis verður draumurinn að martröð og hvað skal þá gera?  Jú ágæta fólk,  það er reynt að gera það sama aftur og aftur og enginn skilur að ekkert breytist. En staðreyndin er að þegar engu er breytt breytist ekkert.  Við sökkvum aðeins dýpra í drullunni.

Loforðin eru stór í kosningabaráttunum svo stór að illmögulegt er að standa við þau.   Og kjósendur vilja svo gjarnan trúa þeim, trúa á kraftaverkin.  Búnar til óraunhæfar væntingar sem verða aldrei að veruleika og engin geta til að viðurkenna ósigur  til staðar. Og aftur og aftur er gengið á sömu veggina og klesst.    Sama hvaða málefni er skoðað húsnæðismál, öryrkjar-aldraðir,  umhverfismál, hjá launafólki eða heilbrigðismál m.m.  Eins og ekkert hafi lærst af síðustu áratuga feilsporum, mistökum eða af því sem reynst hefur vel.  Eins og haltur leiði blindan og af þrjósku er haldið áfram sama hvað gerist.  Það gamla skal reynt aftur kanski verður útkoman önnur í þetta skiptið. Og við sökkvum dýpra.  Eina raunhæfa leiðin er að byrja á byrjuninni.  Skipta sameiginlegri tekjuköku upp á nýtt í sátt og samvinnu. Endurskoða samfélagið Ísland og rekstur þess frá grunni.  Byrja á byrjuninni.

Viðurkenna að óraunhæfu draumarnir verða ekki að veruleika að kraftaverkið lætur enn bíða eftir sér. Að viðurkenna að hlutir breytast ekki við að krafsa í sárunum og setja plástur á það. Það lítur betur út eitt augnablik en undir kraumar gröfturinn og staðreyndin að óbreytt leið gefur ekki nýja útkomu

Skipta verður sameiginlegum þjóðartekjum okkur frá grunni með raunhæfri bókhaldsskoðun og af sanngírni og auðmýkt.  Skoða raunverulega og heiðarlega hvað þarf til lágmarksframfærslu að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna.  Ekkert er til í dag sem sýnir raun framfærslukostnað þar sem allt er tekið með.  Það er allstaðar verið að blekkja einhverjum öðrum í hag en launþeganum.  Vegna þessa er aldrei til rétt tekjuviðmið  þegar reikna á t.d. út svokallaðar “bætur” sama hvers eðlis þær eru.  Allt er tilbúið og falskt og ekki í samræmi við raunveruleika fólks t.d. varðandi matar- og húsnæðiskostnað.  Enda staðreynd að ekki lífir nokkur á lágmarksframfærslu.  Hún er fölsuð “opinber tala” eins og annað sem tengist greiðslum til almennings.

Nú á á semja um launahækkanir og breytingar á húsnæðismarkaðinum og talað um leiðréttingar aftur í tímann.  En það breytist ekkert við það!  Þetta var jafn vitlaust fyrir ári síðan eða fyrr,  þannig að nú á aðeins að flytja vitleysuna fram í tímann.  Það breytist ekkert í samanburðinum við þetta og tekjuskiptingin ekkert sanngjarnari þegar vitleysan er flutt áfram án þess að upphafið sé skoðað.  Það verður að skoða heildina og skipta öllu upp á nýtt sama hvað allir segja.  Má vera að það sé talsverð vinna en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. 

Það var vitlaust gefið í upphafi vegar og síðan hefur vixillinn verið endalaust framlengdur vitleysunni aðeins verið haldið við og engu breytt.  Ef eitthvað er þá hefur bilið aukist milli fátækra og ríkra á Íslandi.  

Get áfram sagt að mér finnst stjórnmálaflokkarnir og stéttarfélögin hafa staðið sig með ólíkindum illa! Áratugum saman hefur ríkt stjórnleysi falið í fagurgala og ofurstjórnun og bönnum. Engu verið breytt!


Klíkuskapur og þöggun?

Íslensk samfélag er lítið. Í raun minna en lítið! Aðgangur að fjármagni, vinnáttu-kunningjasambönd, pólístisk og/eða fjölskyldutengsl eða hreinn og ódulinn klíkuskapur íbland við spillingu er það sem stýrir land okkar. 

Stjórnmálafólk er hugsanlega í þeirri trú að þeir stjórni en ég held að það sé óskhyggja sem ekki í sjáanlegri framtíð verður að veruleika.  Þrýstihópar í sjávarútvegi, landbúnaði, vöruinnflutningi, klíkur innan banka og framkvæmdaverktaka það er allt morandi í þrýstihópum sem ráða ferðinni. Og við sem kjósum til sveitar- og landsstjórnar höldum of oft að við ráðum einhverju. Og því miður virðast mér hagsmunasamtök launþega einnig í þessari duldu hagsmunagæslu fyrir aðra en félagsmenn sína. 

Það þarf sterk bein og hugrekki ef á að breyta samfélagi okkar til betri vegar.  Og ég efast hreinlega um að við sjáum það í náinni framtíð.  Óttinn við að styggja valdið er þó sterkasta aflið og það sem ræður mestu um hver er látinn/fær að stjórna.  

Man þá tíð er ég vann í opinbera kerfinu. Sannleikann mátti sjaldnast tala um. Skipt var algjörlega um skoðun á fjögurra ára fresti og hjálpi þér ef þú hafðir aðra skoðun en pólistiskt yfirvald eða hagsmunagæslufólk í stjórn stofnunarinnar. Sveitarstjórnir notuðu sína pólítísku fulltrúi til að fá sitt fram gegn tillögum starfsmanna um hagkvæmni og skynsemi.  Og seinna komu svo þessir sveitarstjórnarmenn og vildu að stofnunin bæri ábyrgð á þeirra vitleysu.  Já öll vitleysan er ekki eins og við höldum. Opinberar nefndir eru oftast settar saman af hagsmunagæsluhópum til að semja drög að væntanlegum lagafrumvörpum.  Er nema von að flest lög frá Alþingi verða samsuða til að þóknast þrýstihópum og þar af leiðindi breytist lítið almenningi í hag. 

Þessi óbeinu og beinu skilaboð um að ef þú segir of mikið "okkur" í óhag verður þér refsað í starfi eða persónulega lágu/liggja alltaf í loftinu. Ef þér tekst t.d. að fara af opinberum vanskilalistum eru bankar og lánastofnanir með eigin vanskilalista sem aldrei fyrnast. Einstaklingar eru fastir í snúru sem aldrei slitnar.  Hugsanlega löglegt en örugglega siðlaust. 

Við verðum að endurskoða sameiginlega fjármagnsköku okkar og skipta henni aftur í réttláta bita. Einhver verður að byrja að gera þessar kröfur og samstaða að myndast svo milli aðila um þessa eðlilegu kröfu almennings. Ljóst er að eldhúsáhaldabyltingin mistókst og flestallt komið í gamla kunnuglega farveginn.  

Endurnýjum þessa byltingaþörf okkar og látum ekki af henni fyrr en þessum breytingum á grunnskiptingu fjármagns í landinu er náð.  Fjármagnið er til það lekur bara niður í sprungur til þrýstihópa áður en til almennings er náð.  


Er hroki og blind hagsmunagæsla að stýra landi okkar?

Hvenær fáum við að sjá raunverulega framtíðarsýn hjá stjórnmála- flokkunum?  Sýn sem tekur á grunnvanda  okkar og þorir að breyta steinrunnum grunni þeim er samfélag okkar stendur á.  Síðastliðna áratugi hefur Alþingi samþykkt endurlausa plástra á sárin án þess að fjarlægja gröftin.  Vegna aðgerðarleysis verður aftur og aftur að setja nýja plástra á gömlu sárin þegar endurnýjaður gröftur  vill út. Árlegur viðburður og sérstaklega á fjögurra ára fresti. Ef ný ríkisstjórn kemur er öllu bylt og byrja verður upp á nýtt!

Það er forgangsmál að gera grundvallar breytingar og skipta heildar tekjuköku landsmanna með nýju fordómalausu hugarfari.  Það er eitthvað að skiptingunni. Tekjurnar eru þarna en peningurinn virðist gufa upp þegar á að nota hann.  Hvar eru sprungurnar sem hann fellur í á leiðinni til fólksins?  

Húsnæðispólítíkin er úrrelt,  ístöðulaus og skortur er á framtíðarsýn.  Vitræn stærðarhugtök,  hönnun,  valmöguleikar á tegund/gerð húsnæðis er ekki til staðar.  Vaxta- og leigubætur eiga að heita húsnæðisgreiðslur þar sem bótatalið heldur niðri sjálfstæðiskennd fólks. Jafnræði verður að vera milli leigu og eignarfyrirkomulagið.  Ekki á að ráðstafa meir en 25% af tekjum í greiðslur vegna húsnæðis.  Lán til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði á að vera til 60-70 ára með lágum vöxtum enda erum við ekki að byggja torfbæi eða hvað?  Eignartalið er svo úr sér gengið að engu tali tekur. Hver er eiginlega að eignast í dag?  Þau sem vilja eignast verða einfaldlega að greiða hærri vexti.  

Þetta snýst nefnilega um öruggt, ódýrt og hagkvæmt húsnæði og frjálst val og ekkert annað.

Hagsmundagæsluárekstrar eru of algengir í vináttu- og vandamanna samfélagi okkar. Litlir þrystihópar með sterk tengsl inn í kunningjasamfélagið og pengingaveldið ná ætið sínu fram.  Sést vel á forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar við niðurfellingu á gjöldum og sköttum til þeirra er mest hafa. Og hækka svo sjúkragreiðslur og svikja loforð til láglaunafólks og leika sér með milliþrepalækkun á skattinn sem litlu breytir fyrir almenning.  Enda vantar svo fjármagn upp í kunningjaafsláttinn!

Nýjasta dæmið um siðleysi er skipun félags- og húsnæðisráðherra Eyglóar Harðardóttur í formannssæti Íbúðalánasjóðs.  Viðkomandi er einnig í sérfræðingahópi forsætisráðuneytisins sem á að vinna að leiðum til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Vinna hópsins á að öllum líkindum eftir að hafa áhrif á framtíðarrekstur Íbúðalánasjóðs, stærsta lánveitanda húsnæðislána á landinu.

Ráðherra segist treysta viðkomandi sem ekki ætlar að hætta við.  En þetta er ekki spurning um traust heldur trúverðugleika og að ekki geti komið upp efasemdir um heilindi í starfi. Ekki bjóða okkur upp á þetta félagsmála- ráðherra! Nóg er til af fólki í þetta sem er duglegt, klárt og ekki tengt inn í ykkar heim.

Innflytjendamálin eru til skammar.  ESB., stjórnarskrármál, umhverfismálin, matarverð, heilbrigðismál, húsnæðismál, launamál og skattamál meira en minna í lamasessi og svona má áfram telja. Hvar eru þjóðaratkvæða- greiðslurnar?  Hvernig stendur á þessum óendanlegu styrkjum til landbúnaðarins?  Hvað er eiginlega í gangi gott fólk?  Hvar er gagnkvæm virðing og auðmýkt? 

Röltum á Austurvöll! Eru pottar og pönnur það eina sem skilst á Alþingi? 


Hver er Mér næstur? Ég, þú, það eða eitthvað óútskýranlegt annað?

Stórt spurt og í raun "einfaldara" svar en ég átti von á. "  Sagt er að "Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi" þetta voru orð Grettis Ásmundarsonar en einnig Kára um Björn í Mörk í Njáls sögu. Við virðumst lengi hafa hugsað djúpt og velt vöngum yfir því sem er erfitt að skýra í orðum heldur verður að finna hið innra með sér. 

Fór að hugleiða þetta þegar ég skrapp fyrir skömmu til fæðingarborgar minnar Stockhólms. Ef til vill vegna þess að þar var ég í fyrstu einn en upplifði samt ekki einmannaleika eins og oft áður í lífinu. Hvað hafði breyst?. Fannst skrítið að eiga ekki gáfulegt og einfalt svar því spurningin var einföld, afhverju leið mér "uppljómað" eins og lifandi í kærleika? Með í raun "ekkert" í kringum mig!

Ég byrjaði á því að skoða mitt veraldlega. Lítið hefur breyst síðustu ár. Á lítið veraldlegt sem meta má til fjár en skortir samt ekkert. Er það hugsanlega svarið eiga ekkert en skorta ekkert? Nei ekki alveg nóg og skýrt en samt hlaut það að vera hluti af svarinu?

Var alinn upp við að umgjörðin skipti í raun öllu.  Það sem þú sást var það sem ég og við vorum. Byggðist sjálfsmynd mín og það hver og hvað ég er upp á alla þessa ytri áherslu úr æsku minni? Hafði skort alla innri uppbyggingu?  Það að ég í sjálfum mér væri einhvers virði. Er að komast að því að þetta hafði gerst eins og sjálfvirkt í uppeldi mínu. Óviljandi, óvitandi hafði sjálfsmyndin og sjálfstraustið verið byggt upp á allt það ytra sjáanlega í umhverfi mínu. Það hafði gert mig að því sem ég var meðvirkur, óöruggur einstaklingur sem var alltaf í speglinum. Þarna hef ég lengi verið staddur með líf mitt, allt skal líta vel út fyrir umhverfið.  Eða er réttara að segja að fyrstu ár ævi minnar hafði gert mig að því sem ég var, þar til núna þennan nýjast liðna tíma í lífi mínu?

Þarna var ég í Stockhólmi einn og mér leið ágætlega og lífið gott! Upplifunin af þessu var sterkari en ég hafði getað ímyndað mér. Og upplifunin kom að innan ekki úr ytri aðstæðum það var það nýja og óvenjulega. Kærleikstilfinning streymdi um mig og fyllti mig af öryggi og vellíðan.  Var nema von að þetta gerði mig smá efins um að ég væri alveg í lagi.  Eitthvað hlaut eiginlega að vera að? Ákvað samt að njóta stundarinnar og lifa í þessum kærleika sem ég fann innra með mér. Gæti verið að ég væri á þessu augnabliki mér nálægur og næstur að einhverju eða mestu leyti?

Þegar ég skoða hvað hefur breytst síðustu ár er það augljóst að veraldlega hef ég jafnvel orðið fátækari.

Jafn augljóst er  að andlega og félagslega hef ég orðið ríkari. Það er meiri kærleikur, meiri nánd, meira frelsi, meiri gleði og meira af öllu því sem ég hér í Stockhólmi er að finna innra með mér og ég upplifi sem sátt og kærleika til sjálfs míns og umhverfisins.

Sjálfsvinnan er að skila árangri. Leitin inn á við til upphafsins eftir skilningi og trú á sjálfum mér er að skila sátt í augnabliki dagsins. Það sem ég skil núna er að innra með mér byr minn æðri máttur,  kærleikurinn þessi innri hlýja "brjóstbirta" sem ég finn innra með mér þegar mínum vilja er sleppt. Tilfinningin og upplifunin fyllir brjóst mitt af kærleika.  Kærleika til alls sem er og var því ég er í dag eins sáttur við fortíð og nútíð og ætla má. 

Þessi upplifun af sátt og kærleika til min og umhverfsins var að taka yfir og ýta út þessum yfirþyrmandi innri tómleika sem ég hafði lifað í áratugi og reynt að fylla af allskonar "fixi" ytri áferð, áfengi, mat, vinnu, tölvu og annarskonar öðru uppfyllingarefni. Það var í raun dýpst í sársaukfullum tómleika lífs míns sem ég hafði gefist upp og leyft þessu nýja að taka við og breyta öllu sem mér í æsku hafði verið kennt að væri ég. Stíga út úr þægindarammanum sem var í raun eins og fangelsi og breyta í trausti þess að hinum meginn við sársaukann biði mín í óþolinmæði hinn raunverulegi ég og kærleikurinn til lífsins.

Það er þessi nýi ég sem sit hér í Stockhólmi sáttur við sig og umhverfið. Þarna hinum meginn við sársaukann beið ný fjölskylda og nýtt fólk í nýju umhverfi sem allt skiptir mig miklu máli. En upprunafjölskyldan er og verður alltaf þarna og ekkert fær því að ég finn breytt.  

Ég er þakklátur fyrir að hafa á fullorðinsárum náð að þiggja lífið að gjöf. Það er ekki sjálfgefið að það gerist og þegar sátt og kærleikur er allt umlykjandi þá er gott að lifa. Ég mæli með þessu.


Stærðin skiptir máli!

Verið að auglýsa nýjar íbúðir miðsvæðis í Reykjavík. Ekkert nema gott um það að segja nema eitt. Enn og aftur erum við á fermetra fylleríi !!

Fyrir hverja er verið að byggja? Virðist mér sem aðeins eldra vel auðugt fólk geti keypt þarna og er þetta það sem býðst á fleiri stöðum miðsvæðis í borginni!  Hvað höfum við að gera við td. allt að 

84 m2 tveggja herb., 117 m2 þriggja herb., eða  130 m2 fjögurra herb. íbúðir? Hér er að ósekju hægt að bæta einu herb. við allstaðar og ekki um þröngbýli að ræða. 

70 m2, 90 m2, eða 105 m2 væri nær lagi og myndi lækka verð frá ca 7 mkr. til 10, 12 mkr. 

Hér er verið að viðhalda ástandi greiðsluerfiðleika, aldurskiptri búsetu, fjölskyldustærð verður einhæfari og spurning um nýtingu skóla í svona hverfum.   

Hættum þessari þörf fyrir ofurstærð í steinsteyptum táknum en eflaust stafar þetta af innbyggðri minnimáttarkennd þjóðarinnar.  Kennd sem leiddi okkur inn í hrun 2008 sem við ættum að læra af ekki gleyma og viðhalda vitleysunni.

Okkur skortir nýja stefnu í húsnæðismálum og engin virðist ætla taka af alvöru á húsnæðismálin í loforða flaumi flokkana.  

 

 

 


Heildarmeðallaun segja ekkert um stöðu máls, hér vantar aðalhluta í frétt um heildarvinnutíma þessa hóps!

Það hlýtur að teljast góð fréttamennska að tengja þessar tölur um tekjur við unnar vinnustundir. Þannig að þetta er ekki góð og upplýsandi frétt.  Getur verið að hér á bakvið liggi mikil yfirvinna og mikil frávera frá fjölskyldu?  Einnig hef ég grun um, til eru tölur um það,  að afköst okkar sé með lélegra móti ef miðið er við hvað við vinnum langan vinnudag.  Meðaltal er hættulegur samanburðarleikur. 

Nær væri að stytta vinnutíma gera kröfur um og skapa aðstæður fyrir betri afköst og greiða hærri laun. Jafnvel er hægt með styttingu vinnutíma að skapa fleiri störf.  

Með hækkun skattleysismarka úr 129.917 kr í ca 200.000.- væri verið að skapa hvetjandi kerfi. Og að þurfa að greiða gjöld vegna atvinnuleysis- (172.609.)  og örorkubóta er út í hött. 

Við erum ótrúlega föst í viðjum vanans og fáir ef nokkrir eru með hugmyndir um nýjar leiðir fyrir okkur. Er ekki fullreynt það sem hefur verið í gangi sl. áratugi í sambandi við þessi mál?  

Horfði á fulltrúa Pírata í gærkvöldi í mjög fróðlegu viðtali á RÚV sem allt var á ferskum nótum og hressandi fannst mér.  Meira af þessu sama góðir frambjóðendur.  


mbl.is Meðallaunin 402 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á kolrangri leið í húsnæðismálum.


Að eiga  aðgang  á öruggu húsnæði er grunnréttur líkt og matur og hreint loft.  Þessi sífellda endurtekna romantik í kringum s.k. eignastefnu er  að mínu mati fölsun og fær okkur ekki til að líða betur eða verða hamingjusamari!  En enn er staglast á dásemd þess að “eignast” eigin íbúð.   En eigum við ekki að eiga sparnaðinn handa okkur á meðan á lífinu stendur og njóta skemmtunar og hamingju.  Ekki endilega spara í dauðri steinsteypu. Þetta virðist hafa byrjað upp úr seinni styrjöldinni þegar við vorum enn fátæk og draumurinn var einfalt eigið húsnæði.  En þetta  varð fljótlega að draumi um sem flesta fermetra og sem dýrastan marmara. Draumurinn varð að martröð og þjóðin pinnföst,  naglhreinsandi og borgandi af okurlánum.  Við virðumst bara of stolt til að viðurkenna að við fórum offari í þessu sem svo mörgu öðru og erum enn á þessari meir en vafasömu leið!

Staðreyndin er að húsnæði á Íslandi er alltof stórt. Við erum með fleiri fermetra á mann en allir aðrir.  Og tilhvers má spyrja sig þurfum við fullt af ónothæfum fermetrum í hverri íbúð og sameign.   Íbúðir verða of dýrar vegna m.a. þessa.  Skoðið lúxushúsin eða stóru  íbúðirnar í blokkum sem eru til sölu.  Er ekki í lagi heima hjá okkur? 

Skoðum eftirfarandi:

A.      Lán vegna öflunar húsnæðis eru of stutt og með of háa vexti auk verðtryggingar.   Þessi lán hefðu  ekki átt að vera  til 15, 25 eða 40 ára heldur til 60 eða 70 ára og þar af leiðandi með lægri vöxtum.  Við byggjum gott en of stórt húsnæði sem endist lengi.  Og tískan var að hluta til að greiða hratt niður til að “eignast”  steypuna.  Á kostnað  hárrar greiðslu- og húsnæðiskostnaðar  sem hefur haldið þjóðinni í vinnuþrælkunarfangelsi áratugum saman.

(Lán til leiguíbúða var þó komið í 60 ár með lágum vöxtum)

B.      Lækkun byggingarkostnaðar og færri fermetrar  er brýnt.  Sem dæmi má nefna að 3ja herberja íbúð þarf ekki að vera nema allt að 70 m2. og 4ra allt að 90 m2.  en ekki að 2ja sé 70 m2. og 3ja sé 90 m2.  o.s.fr.

C.      Til viðbótar þessu á hér að vera almennur húsnæðismarkaður. Almenn lán eiga líka að vera til a.m.k. 60 ára með lágum vöxtum.   Ef byggt er yfir stærðarmörk verða lánin hlutfallslega dýrari og viðkomandi borgar meira fyrir alla auka fermetrana. Enda væntanlega efni á því! Varðandi almennu lánin gætu bankarnir komið inn ef þeim er treystandi til þess? Lánað allt að hugsanlega 95% af kaupverði eignar.

 

Félagslega húsnæðislánakerfið var lagt niður 1998.  Þar gerðu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur  mikil mistök.

Félagslega kerfið var að standa sig vel í rúm 60 ár og engin ástæða var að leggja það niður.  Félagslegar framkvæmdaaðilar voru þó síðustu áratugina með of stórar og of margar íbúðir á sama staðnum.   Og vegna of margra fermetra og dýrra lóða var búsetukostnaður of hár.  Þetta eru einfaldar staðreyndir.  Hafði ekkert með félagslega lánakerfið að gera.  Byggingaraðilar voru einfaldlega kærulausir og komumst upp með það oft í gegnum pólítísk sambönd.  Þessa þætti hefði á sínum tima mátt laga með einföldum aðgerðum! Fólk sem var með frá 90% til 100% félagslegt lán var hlutfallslega minnst í vanskilum þrátt fyrir að hafa lægstu launin,  þannig var það nú!

Margir eru í dag að tala um að endurvekja félagslegt íbúðalánakerfi og þá hef ég oft bent á eftirfarandi.

Sænska borg sem er með byggingafélag sem heitir Skövdebostäder  (www.skovdebostader.se )sem er heildar mótuð húsnæðisstefna í sveitarfélaginu.  Þeir eiga og reka hefðbundnar íbúðir, stúdentaíbúðir og íbúðir fyrir 55 ára og eldri. Þannig að viðkomandi þarf aldrei að fara út úr þessu félagi ef aðstæður breytast ekki eða flutt annað.   Hér er um ýmsar gerðir og útfærslur á íbúðarhúsnæði að ræða.  En öllum er auðvitað frjálst að byggja sjálfir en bara á öðrum forsendum.

Við eigum ekki að þurfa að eyða nema í mesta lagi 1/4 til 1/3  af tekjum í húsnæðiskostnað.  En við náum því ekki nema með heildarátaki og hugarfarsbreytingu.  

Endurgreiðslur þess opinbera skulu heita húsnæðisGreiðslur og taka mið af tekjum, stærð fjölskyldu og íbúðarstærð.  Allt fer fram í gegnum skattakerfið sem greiðir  á eins til þriggja mánaða fresti þessar Greiðslur.  Og miðar endurgreiðslur við að ná áætluðu/settu leyfilegu hámarki húsnæðiskostnaðar viðkomandi fjölskyldu. Á þetta til jafns við um leigu- og eignarhúsnæði.  

Við notendur eigum þetta fjármagn sem ríkið notar til endurgreiðslu þar af líðin tíð þegar halda þarf niðri huga og vilja þegnanna með því að kalla þetta bætur. (Gamaldags úrreltur ölmusuhugsunarháttur.)  Þetta á auðvitað við um allar endurgreiðslur svo sem örorkugreiðslur, lífeyrisgreiðslur eða húsnæðisgreiðslur.

Ljóst era ð breyttur húsnæðismarkaður sem auðveldar leigu- og/eða kaup á íbúð mun til lengdar spara kostnað í heilbrigðismálum þjóðarinnar.  Húsnæðisþrælkunin sem hefur tiðkast hér hefur kostað margan sjúkdóminn og verið mörgum til ama og erfiðis í daglegu lífi.

Þetta eru fáeinar hugmyndir sem ég hef skrifað um s.l. áratugi en ekkert hefur breyst nema til hins verra og þar af leiðandi í raun alltaf hægt að birta sömu greinina.

Vonandi ber okkur gæfu til að taka húsnæðismálin til heildarendurskoðunar á næsta kjörtímabili þótt ekki sé ég bjartsýnn ef flokkurinn sem lagði félagslega kerfið niður kemst til valda.

Percy B. Stefánsson

Ráðgjafi hjá Lausninni sjálfsræktarsamtök og fyrrverandi forstöðumaður félagslega húsnæðis lánakerfisins hjá þáverandi Húsnæðistofnun ríkisins. (Íbúðalánasjóði) 
mbl.is Tillögur Framsóknar valda bólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband