20.5.2006 | 11:58
Dægurmál? Menning eða lífsstíll.
Kosningar nálgast og baráttan meira áberandi. Loforð fljúga hátt í takt við lífsstíl kjósenda og farið að bera á yfirboð. En oftast er of hátt flogið og of hátt boðið. Trúverðugleikinn víkur fyrir óttann við að missa af sæti við valdaborðið.
Allir virðast mér taka núverandi lífsstíl kjósenda sem sjálfsögðum. Engin kemur með róttækar hugmyndir um samfélagslegar breytingar. Engin spyr er það þetta sem við viljum! Viljum við þennan hraða, þessa óheftu græðgisvæðingu, manneskjufjandsamlegu fjölskyldustefnu eða þennan yfirgang á aldraða og öryrkja?? Þetta er að verða dýrkeyptur lífsstíll fárra á kostnað meirihlutans!
Mér finnst lífsstíll okkar svo lygilega yfirborðskenndur. Við virðumst lifa lífi sem er eins og ganga á ofurþunnum ís! Ekkert má gerast þá kemur sprunga og jafnvel vök. Og hvað gerum við þá?
Það hefur alltaf legið fyrir hvert húsnæðismálin mundu þróast! Með glæfralegum lánum á hátindi markaðsverðs. Segir okkur líka hvað eignastefnan er úrelt fyrirbæri!
Það liggur fyrir að með núverandi eltistefnu við "græðgislífsstíl" verðum við meira ein og utanveltu. Byggjum sífellt fleiri heimili frá vöggu til grafar. Því engin hefur tíma! Alltaf erum við með dýra matinn og háa búsetukostnaðinn. Og aldrei gerum við neitt í þessum grunnatriðum lífsins.
Vilja ef til vill einhverjir bara vera heima og sjá um börnin sín? Vilja einhverjir búa í góðu húsnæði á góðum kjörum? Vilja einhverjir borða mat sem er eldaður fyrir viðráðanlegt verð í stað skyndibitans sem kostar svo meira. Vilja einhverjir streituminna samfélag?
Erum við hugsanlega að búa til samfélag sem við viljum í raun ekki búa í ?? En engin segir neitt! Ekkert sem verið er að gera í dag bendir til þess að verið sé að snúa blaðinu við eða gera stefnubreytingu. Ekkert bendir til þess að kjósendur séu að krefjast þess heldur!!!
Allt tal um tekjutengingar lífeyrisgreiðslna og bóta eða tvöfalda skattheimtu á lífeyri! Allt tal um lágmarkslaun, skattleysismörk, persónuuppbót og fleiri er aðeins spurning um forgangsröðun. Hvað viljum við fá út úr lífinu? Hvernig lífsstíl kjósum við að lifa? Eða á bara jafnvel að skila auðu? Yppta bara öxlum? Er engin að líta upp úr drullupolli græðginnar og sjá allan dómgreindarskortinn?
Hætta er á að við missum af öllu því góða sem er að gerast vegna álags við að lifa bara einhverskonar lífi.
Hvaða lífsstíl viljum við? Ég vil breytingar og nýjar áherslur kanski bara nýjan flokk fyrir kjósendur.
Það snjóar fyrir norðan! Þetta er Ísland í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.5.2006 kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2006 | 15:29
Má kaupa Guð á plastinu! ?
Ég trúi á að til sé máttur æðri minum eigin vilja. Annað væri mikill hroki! Spurningin er bara vil ég hafa einhvern mátt mér æðri í mínu lífi? Hvað verður þá um mig og allar mína áætlanir? Mér hefur alltaf þótt ég mátulega flottur, með margt á hreinu stundum skrikað fótur en yfirleitt staðið upp aftur. Iðulega fannst mér, ef ekki alltaf að Guð og menn höfðu yfirgefið líf mitt. Skildi ekki að hugsanlega lokaði ég á lífið.
Í daglega lífinu finnst mér flestir gera eins og ég gerði þá, svindla á lífinu! Án þess þó að skynja það sjálfir. Því allt sem öfugt fer er öðrum að kenna. Einfalt en of satt lögmál örlaganna :)) Ef ég fer eftir hamingjuuppskrift dagblaðanna þá fer allt vel? Ef ég kýs rétt þá fer allt vel. Ef ég er í réttu fötunum á réttu skuldabréfakörfuna og sést á réttu stöðunum þá fer allt vel. Og svo þegar hamingjan lætur bíða eftir sér er sagt bölvað ólán! Fundin er ný uppskrift að hamingjunni og gamla sagan rúlluð upp aftur.
Að vinnan geri mig frjálsan er ekki satt nema að hluta. Hún nefnilega verður húsbóndi minn þegar of langt er gengið. Og þannig er nú með ansi margan Íslendinginn. Vinnan gerir okkur oft svo blinda og heyrnarlausa! Ég trúi því að þegar einhver segist vera að svindla á Guði! Sé hann í raun að beita sjálfum sér brögðum ljúga að sjálfum sér og misnota Guð! Og svindlar eiginlega bara til að geta haldið áfram örvæntingarfullri og eigingjarni leit sinni að eigin hamingjunni.
En gott fólk mér til mikillar furðu gerðist eftirfarandi í morgun!
Vaknaði og eldaði hafragraut handa unglingnum sem var að fara í síðasta samræmdaprófið. Hinn fékk sér morgunkorn og ég slatta af sterku kaffi. Hleypti hundinum út og hlustaði á gufuna og fannst ég tómur. Eitthvað var að, eitthvað vantaði og ég var ekki í eðlilegu ástandi. En viti menn málið var að mér leið vel ekkert var að og ekkert vont framundan. Er nema von að manni bregði? Ég lifi einföldu lífi án átaka liðins tíma! Rólegu lífi er eiginlega að verða svona pínu kaffihúsaspekingur! Og ég er að læra þetta! Og ég trúi því að ég sé ekki lengur nafli alheimsinsl Hvílik blessun að vera laus við þessa ábyrgð! Að þjóna og vera öðrum góður gefur mér öll auðæfi sem ég sækist eftir. Laus við græðgina sem var að drepa alla gleði og frjáls fyrir metnað hins veraldlega heims. Hvílikt frelsi að vera bara ég í dag og lifa þessu einfalda og góða lífi. Er ráðsmaður hjá bróður mínum hann er á álvertið.
Það er að kólna úti.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.5.2006 | 12:17
Hin spegilslétta tjörn bænarinnar og stjórnmálanna.
Dagurinn í dag er svo fallegur að hann er eins og spegilslétt tjörn. Allt sem gerist sést og hefur áhrif á augnblikið og framhald hans. "Hafðu innra með þér þá kyrrð að hugur þinn sé sem spegilslétt tjörn og þú getir speglað það æðsta án nokkurrar aflögunar. Þá ertu fær um að geisla þínu besta út á við. Leyfðu engu að þvinga þig eða trufla; vertu aðeins fullviss um að allt þróast fullkomlega. " segir Caddy.
Þetta er erfitt í samfélagi dagsins en ekkert er ómögulegt. Bæn og/eða hugleiðsla flytur okkur innri eigin hugarró og styrk. Við fjarlægjumst erfiðleika og þungar byrðar áhyggju eða sorgar verða léttar. Bænin er sterkasta tækið okkur til að finna þessa spegilsléttu tjörn innra með okkur. Því í bæninni í ró hugans hefst leitin innra með okkur og fer þaðan út í lífið! Öfugt við þegar við glepjumst af ys og þys kosningaloforðanna sem svifa í kringum okkur þessa dagana og valda svo yfirleitt vonbrigðum eða tilgangslausri reiði innra með okkur.
Hugarró næst ekki með því að lesa loforð framboðanna til sveitarstjórnakosninga. Brátt verða vandamál ykkur leyst, er sagt í stórum auglýsingum. Treystið okkur og líf ykkar verður léttara. En hættan á vonbrigðum er stór því loforðin eru stór. Sveiflast milli loforða annarra um betra líf fyrir mig og mína! Ég verð að hafa stefnu í lífinu og vera viss um að það sem ég geri er rétt. Og vissan um hvert ég vilji stefna verður að vera innra með mér annars rek ég á reiðanum gegnum lífið eins og skip án stýris.
Ég mundi vilja sjá meiri sannfæringu einhverja sterkari vissu hjá veraldlegum leiðtogum okkar. Sterkari trú á því sem þeir eru að selja okkur. Málefni þessara kosninga verða trúverðugri ef sá/sú sem flytur hann er með þessa spegilsléttu tjörn innra með sér sem speglar sannfæringu út frá sér. Og grunnur allra hlýtur að vera sá sama og takmarkið það sama aðeins leiðin á milli skilur að. Það er nefnilega ferðalagið, leiðin sem er svo spennandi ekki endilega það að ná takmarkinu. Því takmarkið breytist jafnhliða því sem ferðalagið heldur áfram. Hver dagur er nýr grunnur og það sem var takmark gærdagsins er grunnur okkar að breytingum dagsins í dag.
Grunnur okkur er dagurinn í dag og takmarkið vonandi málefni eins og bílaminni/laus borg, grænni borg og meiri tími fyrir okkur að njóta lífsins saman. Ekki endilega með boðum og bönnum heldar frekar með bæn og skilning á þörfum okkar. Jafnvel færri sérbýli og fleiri leiðir til samneyslu og samkeyrslu. Og ekki síst er brýn þörf vegna geðheilsu okkar að endurskoða stofnanavæðingu samfélagsins. Ég vil ekki að besta úrræðið í gegnum lif mitt séu geymslustaðir af allskonar gerðum frá vöggu til grafar. Það má vera næstbest annað hlýtur að skipta miklu meira máli.
Mikið vildi ég óska þess að meiri grunnvinna hefði farið fram hjá flokkunum í framboði. Og að takmarkið væri kærleiksríkara og með sterkari boðskap um manneskjulegra samfélag.
Mér finnst allir eltast við að ná í atkvæði á kostnað kjósenda. Því við gleymumst! Græðgi og flótti frá þessari spegilsléttu innri tjörn er í algleymi. Og hraði alls í dag er ógnvænlegur.
Áttavitinn er úr lagi og við viljum ekki sjá það. En ég er viss um að sá dagur kemur þegar grillir í takmarkið aftur. Sem er einfaldlega þessi margnefnda spegilslétta sólríka tjörn innra með okkur.
Það er sólríkur dagur og ég er á leið út að njóta hans.
Trúmál og siðferði | Breytt 8.5.2006 kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2006 | 20:40
Kærleikurinn er stærstur.
Já hugleiddi þetta í dag. Upplifi tilgangsleysi við að lesa blöðin og fylgjast með þjóðfélagsumræðunni í sjónvarpinu. Flest allt sem er sagt og skrifað af þeim er eiga að leiða okkur inn í betri tíma er kallt mat og útreiknanlegt fyrirfram. Eins og vanti glóðina! Kærleikan! Eins og skorti getu til að tala frá hjartanu og láta heilan hvíla smástund. Auðvitað er ekki allt þannig en því miður að mestu leyti samt.
Ég er sannfærður um að ef við tökumst á við það sem við óttumst mest þá verður sigurinn stærstur. Mörg okkar óttast kærleikan og nándina meir en flest annað. Leyfa meðbræðrum sínum að sjá inn fyrir húðina. Svona gerir maður ekki er oft sagt við börn sem eru heiðarleg og einlæg í framkomu! Galsafengin og kát og óhrædd í einlægni sinni. Börnin treysta í byrjun eru einlæg og leita eftir vináttu þar til annað kemur í ljós.
Okkur fullorðnu finnst oft öruggast að byrja á vantraustinu og sjá svo til. Og yfirleitt komust við ekki lengra og búum okkur til örugga varnarhætti og skjól í vantraustinu. Afhverju er kærleikur og traust svo hættulegt og afhverju er svo lítið talað um það. Afhverju finnst mér kærleikurinn gera mig varnarlausan? Ætti að vera öfugt hann ætti að gera mig sterkari og betri til að lifa þessu daglega lífi. En samfélag hraðans má ekki vera að því að bíða kærleikans. Má ekki vera að því að rétta út höndina og fanga hann. Við reynum frekar að kaupa sálarró á raðgreiðslum! Ferðalag eða bíll eða flatskjá eða............................
allt nema staldra við og finna kærleikann innra með okkur. Finna einmitt núna þessa stundina þakklæti fyrir að vera Íslendingur og lifa og vera til í þessu yndislega landi.
Verð svo lúinn og gamall (ææ) þegar ég heyri bara um vísitölur og gengisrússibanan. Hrun á leiðinni eða ekki hvað með það? Ekki varð þetta til bara sísona afhverju leika hissa?? Er sannfærður um að þessi heimatilbúni vandi er heimatilbúinn. En það vilja þeir ekki sjá sem voru heima við Austurvöll eða í græðgisvæðingu erlendis að búa hann til! Benda á allt og ekkert og kenna hvort öðru um - lýsa yfir engilbleiku sakleysi sínu.
Afhverju? Já afhverju er þessi sífellda togstreita milli kærleikans og óttablandinnar græðginnar. Og vitum við ekki hver hefur yfirhöndina í dag?. Held að óttinn við að staldra við og skoða tilganginn með lifnaðarhætti stjórni okkur í dag þessi græðgisvæðing eigingirninnar. Breytum þessu tökum lífinu í hægðinni. Tyllum okkur niður tökum því rólega því við kaupum ekki hamingjuna sama hvað við getum hlaupið hratt eða getum borgað mikið fyrir hana. Hamingjan er ókeypis hún er allstaðar í kringum okkur umlýkur mig og umlýkur þig. Ég er þakklátur fyrir líf mitt í dag. Ekkert er eins og ég vildi hafa það en samt eins og það á að vera. Trúi því að allt sé fyrirframskrifað bara spurning hvort við rötum réttu leiðina.
3.5.2006 | 11:49
Asninn er staðfast dýr.
Ríkisvaldið er alltaf samt við sig. Tekin er ákvörðun og svo ekkert meir með það. Afleiðingar ekki skoðaðar hvorki fram né aftur í tímann. Haltur leiðir blindan og ákvarðanir svo ótrúlegar og teknar án hugmyndar um raunverulegar afleiðingar.
Staðreynd er líka að það er fólkið með lægstu tekjurnar sem verður mest var við þessa blindni ráðamanna. Framkvæmda- og framtíðarkvíði er aðall þeirra sem stjórna og ráða velferð okkar.
það verður að stokku aftur og gefa upp á nýtt. Þar til það er gert verður allt svona til bráðabirgða og hálfkák. En eftirfarandi er staðreynd.
Skattar hafa raunverulega hækkað vegna þess að skattleysismörk eru óbreytt þrátt fyrir breytingar á tekjum. Raunhækkun hefur orðið á húsnæðiskostnaði þ.e.a.s. ríkisstjórnin hefur lækkað vaxtabætur . er það vegna hækkunar á fasteignamati án þess að á móti hækka viðmiðunarmörkin í vaxtabótakerfinu. Fasteignagjöld, holræsagjöld og önnur gjöld hafa einnig hækkað þar sem prósentuhlutfall gjalda sveitarfélaga er haldið óbreytt þrátt fyrir hækkað fasteignamat. Húsaleiga hækkar vegna þess að viðmiðunarstuðlar leigu breytast en hámark húsaleigubóta er óbreytt.
Það sem er að er auðvitað að þetta gerist í einhverskonar sýndarveruleika. Ekkert hefur í raun breyst nema tölur á blaði eða í tölvunni hjá yfirvöldum. Og það sem verst er mannlegur máttur getur haft áhrif á þessar hækkanir en ríkistjórnin gerir ekkert!
Hjól endulausu vitleysunnar snýst bara og snýst. Fasteignaverð, áfengi, bensín m.fl. hækkar og þá hækkar vísitala sem hækkar lánin og svo framvegis. Hef áður nefnt að húsnæðislán eigi að vera óverðtryggð hjá öllum vegna einnar svona eðlilegrar íbúðareignar.
Koma á húsnæðisgreiðslum til allra vegna afnota á einni íbúð. Íbúðar sem er í eðlilegu samræmi við fjölskyldustærð viðkomandi. Húsnæðisgreiðsla kemur í stað vaxtabóta og húsaleigubóta og er óháð hvort um eign eða leigu er að ræða. En óhætt er að segja að bæði kerfin eru börn síns tíma og orðin eins alsherjar vitleysa þegar grant er skoðað.
Smá samantekt:
Hækka verður skattleysismörk verulega t.d. í 125. þúsund. Koma á húsnæðisgreiðslum og leggja niður fasteignaskatt af einni íbúð af eðlilegri stærð. Breyta álagninguhlutfall fasteignagjalda og aftengja húsnæðislán vísitölu ef um eina íbúð í eðlilegri notkun er að ræða. Einfalda skattlagningu á mat. Ein skattprósenta og færa skattinn þessvegna yfir á aðrar vörur.
Alveg er það líka með ólíkindum þessi tvöfalda skattheimta ríkisins á greiðslum til lífeyfirþega. Fyrst er skattur greiddur þegar greitt er í lífeyrissjóð svo er skattur greiddur af sömu fjármununum þegar peningurinn er endurgreiddur út til lífeyrisþegan.
Allt er þetta hægt ef réttlátt er forgangsraðað. Til dæmis má endurskoða 10% skattinn af fjármagnstekjum fyrir einkum hátekjufólk sem er misnotaður og í eðli sínu óréttlátur. Með kjarki og opnum hug er hægt að gera breytingar sem skila ánægðari og hamingjusamara fólki. Minni veikindi af streitu og breytt álag á venjulega fjölskyldu í þessu óvenjulega landi okkar. Réttlátari skiptingu sameiginlegra tekna okkar.
Jæja þetta er gott í dag gleðilegan miðvikudag gott fólk.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.5.2006 kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.5.2006 | 15:51
Stjórnmál - menning og list?
Ég upplifi stjórnmál sem menningu og list. Stjórnmál fjalla um lífið og lifið er list. Menning á ensku er "culture" sem þýða má sem menningu, siðfágun eða ræktun. Siðfágun er fágætt fyrirbæri sem lítið er gert úr í nútíma samfélagi. Siðfágun er fegrun og lagfæring siða. Að vera siðfágaður er að sýna sjálfum sér og öðrum virðingu! Að vera siðfágaður er að vera heiðarlegur og sjálfum sér samkvæmur. Að vera siðfágaður er að njóta lífsins á forsendum lífsins og sýna gott fordæmi í orði og á borði.
Að rækta samband sitt við lífið er að rækta sjálfan sig og aðra, að halda utan um auðmýktina fyrir lífinu, að dást að fegurðinni allstaðar og undrandi sjá hana oft þar sem síst skyldi halda að hún feldi sig. Hneigja sig og bjóða lífinu upp í dans. Rækta samband sitt við daðrið sem lífið þarf svo á að halda.
En einhverstaður einhverntímann duttu stjórnmál úr tengslum við nútímamanninn. Kjaftapólítík kalla sumir stjórnmál dagsins í dag. Talað og lítið gert? Veit ekki en samt virðist sannleikskorn í þessu. Loforðapólítík, er list sem verður að engu ef hún er stunduð fyrir kosningar og svo gleymd þess á milli. Að snúa áður gerðum loforðum upp í andhverfu sína er list sem mér finnst margir stunda og kunna í ofan á lag því miður illa. Og einhverntímann var það einfaldlega kallað að svikja loforð eða stunda loforðaþvætti. Menning er lífið þetta daglega líf og lífið er t.d. mengunarlaust loft til að anda að sér. Menning er grænt gras til að ganga á. Menning er myndlist, tónlist, veggjakrotalist og sönglist og fólk sem hefur tíma til að njóta menningarinnar. Tíminn í sjálfum sér er list og við þurfum tíma til að njóta menningarinnar. Jarðgöng eru menningarlist sem skapa tíma og tengja okkur saman og svona má óendanlega halda áfram.
Bútasaumur - er listgrein sem ekki gengur að nota við skipulag á höfuðborgarsvæðinu!
En það er lítil list í því að deila fram og aftur um vegi og brýr og byggja endalaus geymslurými fyrir börn og aldraða. Ef það er eingöngu til þess að við hin getum misst okkur í græðgi og svalað fýsn okkar í meira dót. Það er ekki menning og enn síður list að partaskipuleggja höfuðborgarsvæðið og sjá aldrei heildina ef það er valdagræðgi sem aftrar okkur frá því að gera rétt og vinna saman. Þetta bútasaumsskipulag í stað heildarýfirsýnar verður okkur dýrkeypt í framtíðinni. En við ávísun alltaf á framtíðina.
Menningarheimur smákónga okkar.
Lífið er fullt af smákóngum í turnum sínum sem halda aftur af framförum og listsköpun hins daglega lífs okkar af ótta við að missa vald sitt. þess vegna er svo ósegjanlega vitlaust forgangsraðað í opinberumkerfum. þessvegna hefur engin alvöru áhuga á forvarnarstarfsemi sem er í stjórnmálum. Þetta tekur of langan tíma og pýramídastjórnkerfið einfaldlega best fyrir kónginn þaðan má deila og drottna. Það eru menningarleg slys hvernig sjúkrahúsmálum og húsnæðismálum er stjórnað. Fólk er aldrei í fyrirrúmi heldur óljósar þarfir hins hrædda stjórnanda í kerfinu. Og óttastjórnuð græðgi heitir það víst líka að vilja ekki eða þora ekki að sleppa og leyfa öðrum að taka þátt í þessari stórkostlegu listsköpun sem líf okkar er.
Auðvitað er lífið list en ef gremja og öfund er látið ráða ferðinni verður svo erfitt að njóta hennar.
Allt verður svo fúlt og við verðum þessi þunglynda og streitukennda þjóð sem er alltaf hamingjusöm í skoðanakönnunum. Við lifum í sýndarveruleika sem við þorum ekki að stíga út úr.
Því ef við gerum það tekur lífið við og hversdagleikin í allri sinni dýrð og spurningin er hvort við ráðum við það. Að sjá listina í hrafninum á girðingunni, í þvottinum sem blaktir á snúrunni, í húsinu sem er í byggingu og hinn naglhreinsandi hamingjusama mann fyrir utan. Getum við lifað í sátt við Guð og menn án þess að langa alltaf í það sem nágranni okkar á? Ég veit ekki en það er áhugaverð list að sjá það fyrir sér og reyna að móta þessa drauma í raunveruleika okkar.
Gleðilegan 1. maí........................
Menning og listir | Breytt 2.5.2006 kl. 08:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2006 | 10:52
Trú mín og vissa og blaut rigning.
Uppeldi hefur mikil áhrif á afstöðu okkar til lífsins og hlutana í kringum okkur. Afhverju er rigningin blaut og mér sagt að passa mig á henni? Afhverju var Guð refsigjarn og ég smeykur við hann? Var þetta allt ásamt meiru bara troðið inn í mig af misvitrum fullorðnum einstaklingum? Er farinn að halda að líf mitt hafi orðið óþarflega erfitt vegna mannana orð við mig í gegnum árin. Allir sjálfsagt í góðri trú um sannleikan í orðum sínum. Og orð þessi voru stór og sönn fyrir barnið sem hlustaði.
Samfélagsleg áhrif skapa fordóma í gegnum þekkingarleysi og þegjandi samkomulag um að rugga ekki bátnum, segja ekki neitt! Ég gékk úr Þjóðkirkjunni þegar mér þótti stofnunin kirkjan gera mér lifið svo erfitt að ég sem hafði verið skírður og fermdur inn í hana gat ekki verið þar lengur. Líf mitt hafði breyst þegar tilfinningar mínar tóku stefnu í átt að kynbræðrum mínum. Úps þetta var bara ekki satt allt fór á hvolf! Ég dróst smátt og smátt inn í myrkrið því ljósið vildi mig ekki og hræddi. Og Guð sem átti að umbera allt og elska hann fordæmdi tilfinningar mínar. Ég var óhreinn! Samkvæmt uppeldislegri hefð.
En í dag veit ég betur. Kirkjan á ekki Guð! Mennirnir eiga ekki Guð! Guð er fyrir ofan allt elskar allt, umber og skilur allt. Guð er algóður faðir okkar allra. Ég trúi ekki í dag ég veit vissu mína. Veit að ég er Guði þoknanlegur og að hann elskar mig án allra skilyrða. Því skilyrðin um hverjir komast í ríki Guðs er mannana verk. Þeir skilyrða riki hans sem óhreinir eru og efast um skilyrðislausan kærleika hans. Efasemdarmennirnir verða að gera aðra óhreinni en þeir sjálfir. Útbúa V.I.P. forgangskort fyrir sig beint inn í himnaríki og draga aðra í dilka eftir eigin skilyrðum.
En ég trúi í dag á algóðan og skilningsríkan Guð sem sér allt, skilur allt og fyrirgefur allt. Mitt er ekki að dæmi mitt er að vera viss í trú minni á Guð. Bænin er mitt vopn ég bið fyrir þeim er fordæma mig því ég veit að það er vilji hans.
Í dag bið ég fyrir Kirkjunni sem í óöryggi sínu og ótta við álit fárra óhreinna og mikið leitandi manna afneitar lesbíum og hommum. Við erum öll börn Guðs. Öll án skilyrða um kynhneigð, kyn, litarhátt eða annað! Hvenær ætlar kirkjan að skilja það? Hætta að sortera og forgangsraða og opna faðm sinn? Ég trúi því er ég. 'Ég trúi því elska ég. Ég trúi án skilyrða og með opnu hjarta sé ég riki Guðs sem riki okkar allra. Ég trúi því að kirkjan vilji mig en þori ekki að elska mig eins og Guð gerir með sanni.
Ég bíð ekki lengur eftir samþykki eins né neins því ég veit að ég er elskaður sem skapaður af Guði.
Megi þessi rignardagur verða okkur öllum jafngóður.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2006 | 10:58
Dagurinn í dag!
Ég get gert það sem ég vil úr þessum degi. Vakna og ákveð það! Mig langar í dásamlega mengunarlausan, hljóðlátan og kærleiksríkan dag.
Vil gjarnan fá lausn við ringulreiðan og óróleikan sem ríkir í heiminum dag. En spekingarnir segja að fyrst verði allt að versna svo það geti lagast. En er ekki komið nóg? Þessi ótti sem stjórnar oft viðhorfum okkar er í engum takti við innri veruleika ookar sem elskandi manneskjur. Hatur og ótti við innflytjendur, afhverju eða tilhvers? Við vorum innflytjendur einu sinni! Litum inn á við og komum fram við aðra eins og við viljum að sé komið fram við okkur. Græðgi dagsins og líka ótrúleg í bland við öfund og eigingirni. En berlega er að koma í ljós að nýjir bílar, nýjar íbúðir og fleiri ferðir út fyrir skerið gera okkur ekki hamingjusama nema þetta litla augnablik. Augnablikið, þegar við upplifum fyrstu viðbrögðin svo er það búið og leitin að innri hamingju hefst aftur.
Las einhverju sinni að "Það sem er djúpt innra með þér speglast út á við. Þegar jafnvægi, fegurð og friður er hið innra, speglast það í öllu sem þú gerir, segir og hugsar. Ríki hinsvegar ringulreið og ójafnvægi er innra með þér er ekki hægt að fela það því það mun speglast í öllu lífi þínu og lífsháttum".
Hraði og ringulreið samfélagsins, kröfur og grímuklædd græðgi sem er í gangi hér í dag endurspeglar sem sagt innra ójafnvægi. Við erum þjóð í ójafnvægi og leitum eftir jafnvægi í ytri táknum og gæðum. Viljum góðæri núna en ekki í gær það má kosta allann minn tíma, alla mína aura og alla mina sálarró, ég vil góðæri peningana! Ég sé ekki hvernig við eigum að snúa þessu við. Ráðamenn þjóðarinnar eru í þessu skyndihjálparátaki! Og við erum svo þakklát fyrir þetta augnabliks góðæri. Skítt með morgundaginn!
En hann kemur með timburmenn líkamleg sem andleg. En hvað með það fáum nýtt álver en annað sem getur bjargað núinu fyrir okkur. Ekkert annað gildir.
Og auðvitað er það núið sem gildir. Núna þessa stundina vil ég finna frið og vera sáttur við Guð og menn. EN til þess verð ég að gera raunhæfar áætlanir fram í tímann og stefna þangað einn dag í einu. Í friði og sátt og miklu umburðarlyndi.
Ég vil mynda mér uppbyggileg viðhorf til lífsins. Byggja það upp sem er best út frá því sem ég sé í kringum mig og hinu ætla ég ekki að gefa athygli mína, engan lífskraft og þá hverfur það.
Lífið er það sem ég geri úr því. Og þrátt fyrir kosningar, loforð og ósamræmi í tali og efndum trúi ég að góðir hlutir komi út úr næstu borgarstjórnarkosningum.
Ég fæ þann meirihluta sem ég á skilið og ekkert meir um það að segja:)
Fallegur dagur og ég ætla út í sólina og taka mina ábyrgð á þessum degi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2006 | 11:03
Vor og líf eftir vetur og komandi kosningar.
Komið vor og líf að færast yfir fólk og plönturíkið. Café Paris opnað svo Austurvöllurinn að endurheimta fyrri töfra. En með hækkandi sól færist ég nær sælu þeirri sem ég vil svo gjarnan lifa í!
Horfi minna á fréttir og endurtekin rifildi um endurtekin málefni einfalda svæfa mig. Vildi óska þess að stjórnmálin færu á flug með sólinni. Upp fyrir dægurþrasið og smáhlutina sem eru í gangi núna. Upp í hæðir þar sem sést yfir hið daglega líf okkar kjósenda.
Til þess að þetta litla sem truflar hverfi verður það stóra að vera í lagi. Öðruvísi komumst við ekki út úr öngþveiti allra hugmynda og loforða þessara tíma fyrir kosningar.
Allir vilja vera meira með fjölskyldum sínum. Ekkert skrítið, en hver á að útbúa umhverfið þannig að þetta rætist? Held að stjórnmálamenn geta ekki gert nema hluta þessa alls. Ég sem einstaklingur verður einfalda að taka ákvörðun fyrir mig. Vil ég lifa í sátt við stöðu mína í dag eða ætla ég að vera óánægður kjósandi til langtíma? Að lifa í sátt þýðir ekki að vilja ekki breytingar eða framför! Bara að allt verði ekki að gerast núna og ekki á kostnað framtíðar raðgreiðslna.
Verð ég ánægðari með fleiri pláss fyrir aldraða eða börn ef það er bara til að flýja raunveruleikinn og svala græðgi minni? Mitt er að ákveða tilgang minn og hvað ég þarf til að vera hamingjusamur. Lítið eða mikið er ekki málið! Sáttur eða ekki er málið.
Og vissulega verða að koma róttækar breytingar í húsnæðismálum og matarverðsmálum til að gera jarðveginn frjósaman fyrir mig. Ég sái ekki í jarðveg sem er fullur af kögglum og harður!
Ef grunnþörf minni er mætt á ég auðveldara með að lifa því lífi sem ég vil lifa með minu fólki. Það eru stjórnmálamenn sem gera grunnvinnuna. Lágan húsnæðiskostnað, lágt matarverð, ókeypis í strætó sem tákn fyrir stefnu í umhverfismálum eru dæmi um grunnvinnu. Ég get svo lítið gert nema þessir hlutir og nokkrir fleiri séu í lagi.
Hef áður nefnt aftengingu vísitölu við húsnæðislán, húsnæðisgreiðlsur og einfaldan lágan matarskatt . Samsetnig vístölunnar, tengingar hennar og misnotkun er finnst mér refsivert athæfi gagnvart mér sem manneskju. En þetta virðist vera ógerlegt. Heldur er verið að vasast í smámálum hér og þar og breyta yfirborðinu. En undir fallegu útliti margra samfélagsþátta hér á landi er öngþveiti. Strjórnleysi er svona þjóðaríþrótt en við viljum ekki sjá það. Hraðinn er okkur ómissandi! Ekki stoppa ekki hugsa bara slá á raðgreiðslum inn í framtíðina.
Hvað þarf að gera til að við þorum að staldra við og kíkja á hamingjuna? Ekki þessa yfirborðslegu nútímavæddu hamingju heldur gamaldags frið og kærleika í hjarta.
Já hver og einn verður auðvitað að svara fyrir sig. En eitthvað verður að gera viðstöndum á brúninni og verður að stökkva og treysta. Fara inn í framtíðina í trausti þess að gott verði úr öllu. En það er svo skolli erfitt því oft einkenna svör og afgreiðslur ráðamanna af hroka. Þora ekki að segja ég veit ekki að skal skoða málið og koma aftur. Og koma aftur með svar!
Jæja það er vor og loforð um betri tíð í náttúrunni ef við klúðrum þá ekki henni? Tökum höndum saman og búum til betri borg og betra land. Það er í raun svo auðvelt ef við bara þorum að breyta og sýnum þolummæði.
Gleðilegt sumar.
20.4.2006 | 18:13
Sveitarstjórnarkosningar framundan.
Borgarstjórnarkosningar eru framundan og loforðalistar fljúga listilega um himinhvolfin. En til að skilja loforðin verð ég að sjá efndir fyrri loforða. Starf núverandi meirihluta og hugmyndir minnihlutans á móti. Auðvitað skiptir árangur sl. ára talsverðu máli um trúverðugleika dagsins í dag.
Það sem mér finnst þó sameiginlegt með flestum er að græðgisvæðing samfélagsins mótar stefnu þeirra! Eins og skorti pólítiskt hugrekki til að þora að standa með skoðunum sínum eða falla frá þeim. Falla frá einstaklings- og græðgishyggjunni og sjá þörf heildarinnar. Taka flugið og sjá borgarsamfélagið í heild sinni sem einn sameiginlegur vetvangur fyrir alla. Mikill og stöðugur flótti fólks er í gangi í dag. Allt miðast við að þurfa ekki að staldra neinsstaðar of lengi! Og við eigum öll okkar geymslupláss í gegnum lífið frá vöggu til grafar! Og stjórnmálamenn og konur stjórnast of mikið af því að þoknast öllum þessum -ísmum! Hafa ekki sjálfstæðar leiftrandi hugmyndir um grunnþarfir íbúanna og alltof smáa og stutta drauma um framtíðina.
Eru beinar deiluskipuleggjandi, eyðileggjandi sjónmengandi brautir fyrir bíla inn og út úr borginni nauðsyn? Er skringilega óaðlaðandi skipulag á Valssvæðinu og hátæknisjúkrahús með bensínstöð í miðri súpinni nauðsyn? Hefði nú ekki mátt gera þetta öðruvísi? Kanski halda í gömlu þrískiptu sjúkrahúsin? Og sérhæfa þau og halda í sérkenni smæðarinnar. Við erum bara 300.000 manna þjóðfélag! Lifum í samræmi við staðreyndir og sláum ekki alltaf lán fyrir framtíðinni. Sem svo okkar afkomendur verða að greiða fyrir .............
Afhverju þarf ég að þjást af astma og vera rauðeygður í gulu svifryki? Magn svifryks hefur farið 19 sinnum yfir heilsuverndarmörk á þessu ári þar af 10 sinnum í mars! ! ! ! Afhverju má einfaldlega ekki banna nagladekk og skola göturnar? Of dýrt að skola göturnar var sagt, bull segi ég það er mengunin sem er of dýr! Sagt er að Ísland eigi inni mengunarkvóta og hann dugi fyrir nokkrum álverum. En er það ekki léleg ávöxtum í álgróða? Hugsanlega er besta ávöxtunin ef við eigum kvótan bara inni! Hreint loft og minni mengun er líklega hámarksávöxtun. Væntanlega er ósnert land hvort sem er í borg eða úti á landi það sem erfingjar landsins eiga kröfu um frá okkur. Sjálfum finnst mér þessi hugsun um ósnert land til barna þessa lands falleg og eðlileg og einföld í framkvæmd.
Malbiksófreskjur eins og nýja Hringbrautin fær mig til að efast um heilindi stjórnmálamanna Nýja tæknisjúkrahúsið virðist eins og flótti frá raunveruleikanum. Skipulag Valssvæðisins og sífelldar raunhækkanir skatta eins og fasteignaskatta sem miðast við fasteignamat sem er á leið til skýjanna. Sundabraut hér eða þar, skipulagið fyrir neðan Einholt er malbik og steypa- og sífellt nagg er á milli meiri- og minnihluta í borgarstjórn og hljómar svo innantómt. Nýtingarhlutfall þarf að hámarka en aldrei spurt um á kostnað hvers! Já, græðgi- og einstaklinghyggjan aftur á ferð! Mikið rosalega er of oft of mikið talað og of oft of lítið framkvæmt.
Miðbærinn er á góðri siglingu en gæta verður þess að leggja ekki ofurheyrslu á að allir komist þangað á fjallabílunum sínum. Miðbæinn fyrir fólk en ekki bíla. Förum með mengunarþrjótana neðanjarðar og í kringum miðbæinn. Byggjum við og bætum við það sem fyrir er nýtt og gamallt í vinalegri og eðlilegri návist hvors annars.
Og flugvöllurinn, auðvitað fer hann! Skipuleggjum svæðið miðað við 2016 gefum hugmyndum um manneskjulegt samfélag lausan tauminn og spáum svo í hvort við förum á Löngusker eða á Reykjanesið. Margt verður hvort sem er allt öðruvísi eftir 10 ár en í dag. Og öðruvísi en við höldum þessvegna er svo nauðsynlegt að hafa draumsýn en um leið vera vel tengdur í nútímanum. Taka því rólega en stefna upp á við og inn í samfélag þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi og þörf hans fyrir hreinu lofti og manneskjulegu umhverfi.
Jæja nóg í bili Gleðilegt sumar gott fólk.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.4.2006 kl. 07:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)