Færsluflokkur: Menning og listir

Gengishrap orðsins! !

Allt er dýrt kveðið nú um stundir.  Yfirboð verða stærri og illskiljanlegri eða undirboð margflækt fyrir neðan belti.  Eru orð þessi vandmeðförnu verkfæri tungumálsins notuð til fegrunar mannlífsins? Orðnotkun dagsins er sjaldnast fræðandi og skemmtileg í listilegum og upplýsandi tilgangi.  Við höktum á orðum, tökum sjaldnast orð okkar aftur og snúum út úr orðum annarra.  "Í upphafi var orðið" stendur í bók einni!  Hefðum við átt að staldra við í upphafi?  Hugsa, taka ákvörðun og tala eða bara þegja?  Orð eins og ótti koma í huga minn.  Stjórnar ótti okkar við breytingar og nýja leið að lífsfyllingu öllu?  Erum við einfaldlega hrædd við þessa óþekktu leið sem brengluð eigingjörn lífssýn fyrri tíma er að neyða okkur inn á.   Orð eru líka falleg einkum ef óeigingjörn framkvæmd fylgir þeim.

Orð eru eiginlega hræðandi í aðdraganda kosninga.  Verða illskiljanlegri og yfirleitt þarf túlk til að þýða fyrir áheyrendur.  Kosninga-lof-orð eru stórmannleg en óskýr eins og orðrómur sem fjarar út þegar hættir að bergmála í fjallasölum.  Dalalæða er oft skýrari og áreiðanlegri í komu- og brottför sinni en orð margra frambjóðenda nú um stundir.

Mér finnst of mikill ofsagangur, of stór orð, of mikil reiði og of mikill hroki í ummælum sem ganga yfir okkur.  Er ekkert að marka það sem sagt er?  Hvernig væri að slaka á og njóta alls sem kosningarnar bjóða upp á taka þátt í dansinum.  Gleðjast yfir frelsinu til að tala og vera ábyrg um leið. 

Skil ekki sumt sem sagt er en það segir kanski allt um mig en ekkert um þau sem halda orðræðurnar?  Hvaða léttúð er það að einblína á stóra iðju álvera og slíkra?  Hvaða óþolinmæði og skortur á framsýni er þetta?  Algjört virðingarleysi við mannfólk og náttúru og eins og blindur bílstjóri aki þjóðarrútunni okkar.  

Og svona í lokin varðandi óþolinmæði þá er forvarnarstarfsemi farsælli en að laga til eftir að skaðinn er orðinn að veruleika.   Er t.d. ekki betra að vera með ókeypis smokka en klamedíu eða annað verra betra að gefa sprautufíklum einnota sprautur en lækna illvíga sjúkdóma?  Er ekki betra að eiga náttúruna að vini sínum en misnota hana í skammsýnum eiginhagsmunatilgangi?  Þessum aðilum verður að hjálpa eiga erfitt með að verjast sjálfir og sárvantar málsvara sem eru vinir í raun.......

Er enn þeirrar skoðunar að skera verði upp allt hagkerfið og fá ný líffæri.  Allt er svo brenglað og gliðunin milli lífskjara fólks svo sorglega áþreifanleg.  En félagslega blindir eru að skera upp og það segir sig sjálft að illa fór þrátt fyrir 12 ára nám og dýrar æfingar út um allar grundir.

Orð eiga ekki að koma auðveldlega.  Orð skipta máli og þýða jafnan eitthvað.  Göngum varlega sameiginlega leið.  Ég skipti jafnmiklu máli og þú.  Við skiptum jafnmiklu máli og þið.  Framkvæmum stundum án of stórra orða í þögn og gagnkvæmri virðingu.  Kosningar eru í nánd og ábyrgð hvers og eins okkar mikil.  Kjósum rétt - kjósum frá hjartanu af sanngirni og réttlæti.   

 


Steypu- og malbiksmartröð.

Ég hef undanfarið verið að ferðast um höfuðborgarsvæðið.  Mér er ykkur að segja verulega brugðið! Erum við ekkert að læra af fortíðarstórsteypuslysum?  Ég er ekki í vondu skapi en samt þetta er ekki hægt hreinlega.  Erum við ekkert að læra af svörtuslikjunum í stað grænu sem skera allt sundur?  Nafli Reykjavíkur er að verða þéttriðað stórslys forljótra háhýsa.  Held að byrjunarmistökin liggi nýja menningarhúsinu við höfnina sem á eftir að slá öll met í steypunotkun eins og það hafi verið aðaltilgangurinn.  Hvað varð um framsæknar hugmyndir erlendis frá um mikla starfsemi neðanjarðar og íslenska húsagerðarlist ofanjarðar frá Þýskalandi?  Hvað er að verða um Mýrargötuskipulagið?  Afhverju er ekki hægt að leyfa atvinnustarfseminni eins og Daníelsslippnum og fleirum að vera þarna og byggja lága fallega byggð í kringum höfnina?  Hvað er að gerast í Skuggahverfinu?  Og nýja 19 hæða hótelið og ljótu skrifstofuhúsin í túnunum.  Höfðatorg er skrípahönnun og allt þar meðfram.  Vilja í raun Reykvíkingar hafa þetta svona?  Tala nú ekki um Hringbrautarslysið og Hátæknisjúkrahúsið í Hljómskálagarðinum með sér bensínstöð.  Af nógu er að taka keyrði um Grafarholt og ekki sást neinn á gangi í þessu ómanneskjulega umhverfi ferhyrndra steypukassa þar efra.

Skipulags- og umhverfismál er menningarmál og list ef við bara viljum.  Hús eru umhverfismál, götur líka og allt snertir daglegt líf okkar.  Sjáflsagt erum við of seinþreytt til vandræða og það finna stjórnmálamenn og nota ljóst og leynt sér til þæginda í vinnu sinni.

Svifryk fór að sjást í Reykjavík fyrir löngu.  Við þorum ekki að banna nagladekk, þorum ekki að stýra tollum á bíla þannig að mengunarvaldandi þáttur þeirra hafa afgerandi áhrif á verðlagningu á þeim.  Eiginlega hefur öfugt verið farið að síðustu árin s.b. stóra bensínpallbíla.  

Hugsanlega er ég í kasti núna en samt finnst mér þetta satt.  Hvert í dauðanum erum við að stefna? Svari nú hver fyrir sig og kjósum í samræmi við raunveruleikann í kringum okkur.  Ekki af gömlum vana eða afþvíbaraástæðum.  Þetta er okkar umhverfi og líf sem við eigum að ráða hvað verður um. En þá verður líka að heyrast í okkur og það hátt ! ! !

    


Kaffi- Austurstræti í Eymundsson allur í pappa !!

Forvitnin rak mig inn á nýja bókakaffihúsið í Austurstræti. Enda vantar gott kaffihús í miðbænum þau eru öll orðin að barkaffihúsum með áherslu á vín, öl og hávaða. Helst að Kornið í Lækjargötu uppfylli lágmarksskilyrði kaffihúss.  

Aðstæður eru frábærar á nýja staðnum fín staðsetning og huggulegt umhverfi. Suðurgarður á eftir að laða að einhverja og gaman að kíkja út á götu. En, einmitt en! Ég á ekki eftir að koma þangað aftur.  Fyrst og síðast er úrvalið lítið sem ekkert og annað verra allt í pappa.  Kaffi í pappírskrús og brauðið með skinku/osti fékk ég í bréfapoka!!! Þegar ég spurði forviða afhverju? Var svarið nýtt "concept" en líklega þýðir það sparnaðarhugmynd á kostnað kaupandans?  

Verðið var það sama og allstaðar og hærra en á Korninu áðurnefnda.  Hvað er gaman að fara á huggulegt bókakaffi og drekka dýrt kaffi úr pappa og borða dýrt brauð úr bréfapoka???? Nei, nú verða viðskiptavinir kaffihúsa bæjarins að fara að gera kröfur.  Þetta er til skammar fyrir Eymundsson og mér sem kaffihúsavini er misboðið með svona tilraunastarfsemi á okurverði miðað við þjónustu.  Breytið þessu sem fyrst annars spái ég að illa fari............................. 


Fríblöð?

Eru fleiri að verða fyrir þessu?  Megnið af þessari viku hefur
hvorugt fríblaðanna borist í Stórholtið Rvk.  Blaðið sést ekki og
Fréttablaðið er líka horfið? Ætli auglýsendur viti af þessu eða þeir
sem bera ábyrgð á dreifingu þessara blaða? Ekki er erfitt að reka svona
blöð ef dreifing er eins og hún hefur verið hér.  Er líka mikið í
Mosfellsbæ og þar er gloppótt dreifing einnig..... Takið ykkur á góðir
útgefendur!!!! 

Hamingjan býr í næstu götu?

Sem barn spáði ég aldrei í hvað yrði um næstu árin hvað þá hvernig verður morgundagurinn.  Morgundagurinn var svo langt í burtu og var hulin ráðgáta.  Veit ekki hvenær morgundagurinn fór að skipta meira máli en dagurinn í dag.  Veit ekki hvenær ég fór að missa af núinu vegna hugsana um hvað mundi gerast á morgun.  Það er eiginlega skrítið að vita þetta ekki!  Furðulegt að muna ekki hvenær ég hætti að vera til.  Hvaða fyrirbæri var það sem kom þessu af stað. Hvað gerði mig ósýnilegan og nánast að engu í samfélagi sem ég lifði í eða átti að vera til í ? 

Á barnsárunum bjó hamingjan heima hjá mér var bara þar sem ég var.  Ég lék mér, stökk yfir skurði eða var í boltaleikjum. Allt var svo einfalt þar til hamingjan flutti í næstu götu!  Já hvernig var þetta? Hvenær fór ég að vera myrkfælinn? Hvenær gerðist það að hamingjan bara flutti í burti frá mér? 

Ég man enn einn morgun í lífi mínu sem barn þegar ég og bróðir minn fengum mjólk og brauð í nesti og lögðum í ferðalag út í óvissuna.  Allt var svo ævintýranlega stórt og allt svo spennandi.  Við fórum yfir girðinguna hinum meginn við götuna.  Öðru megin var grísaból sem skrítin lykt kom frá og hávær öskur.  Samt var alltaf gaman að hanga á girðingunni og horfa á svínin rúlla og leika sér í drullunni.  Svínin virtust svo geðveikt frjáls og líf þeirra svo einfalt þarna í drullupollinum. 

Ég og litli bróðir röltum í aðra átt í suðaustur frá grísabólinu.  Við okkur blasti tún, hestar og hús sem voru að hruni komin enda úr afgangstimbri og gömlu ryðguðu bárujárni.

Hestarnir litu upp og kinkuðu kolli til okkar.   Nokkrar kýr horfðu á okkur stórum alltaf smá hissa augum en kindurnar tóku á sprett.  Við gengum áfram í háu óslegnu grasinu, stukkum yfir nokkra illfæra skurði af leikni en samt í smá spennukasti.  Hvað ef ég næði ekki yfir en ég var léttur og flaug alltaf yfir.  Bróðir minn var seinni í svifum og hikaði oftar og reyndi að finna aðra leið en svifleiðina. Fjöllin voru allt í einu svo stór og svo nálægt.  Mér brá vorum við ekki komnir heldur langt að heiman?  Bóndabær birtist allt í einu og mér fannst ég kominn inn á gafl hjá ókunnu fólki.  Stóðum eins og boðflennur á hlaðinu,  snérum við og fórum aðra leið.  Röltum áfram og gamall maður kallaði á okkur hálf tannlaust brosið hans var svo furðulegt en skringilega fallegt.  Blessaðir drengir á hvaða leið eruð þið spurði hann?  Ég svaraði engu leit niður og flytti mér áfram.  Seinni vissi ég að þetta var góður karl sem bjó þarna efra og lifði bara sínu lífi.  Sæll með sitt held ég en alltaf kallaður nöfnum og talinn skrítinn svona af þeim sem voru ofan í daglega brauðstritinu og höfðu engan tíma til að stökkva yfir skurði.  

Við bróðir minn fórum að finna fyrir þreytu og settumst niður í sólinni.  Það var alltaf sól á þessum árum bernsku minnar - alltaf heiður himinn.  Sat þarna og veit núna að allt var svo allveg allt í lagi.  Ekkert sem truflaði ekkert sem hræddi eða angraði okkur.  Samt var ekki tómatilfinning!  Það var bara allt í lagi, lífið bara var, og mér leið vel.  Sagði við litla bróður að við skyldum labba aðeins lengra nær gamla stökkpallinum og fá okkur nesti þar.  Framhjá stóra bænum og inn í litla skógin í lægðinni.  Við gengum áfram aðframkomnir af þreytu í fótunum.  Fjallið fyrir ofan sem er bæjarprýði virtist ógnvekjandi hátt og allt í einu fannst mér ég vera villtur.  Settist nær litla bróður mínum og leit á hann.  Hann var hinn ánægðasti með snúð og mjólk og ekkert villtur að sjá.  Ég sagði, klárum nestið og förum heim.  Hann var oft sá sem róaði mig án þess að vita það var hjarta mitt og hugrekki mitt.  

Ferðin heim tók rosa langan tíma en heim komumst við.  Gengum inn í þvottahúsið og ég kallaði á mömmu sem leit fram til okkar. Allt var í lagi.  Þetta ferðalag okkar bræðranna er langt og spennandi í minningu minni.  En var í raun styttra og allt öðruvísi veit ég í dag.

Leið okkar hafði legið um stór og villt tún minninganna sem í dag eru byggð af stórum steypukössum og rúmum fjörtíu árum seinna er þetta ekki nema yfir fjórar götur að fara.  

Hestarnir, kýrnar og kindurnar farnar og blikkbeljur með hestöflin undir húddinu og gamli maðurinn farinn frá okkur.  Hann er nú lánsamur að hafa misst af þessum skæruliðum sem fóru með eldibrandi menningarinnar yfir tún og engi og rændu okkur grasið og frið himinins.  Heppinn að hafa misst af því að vera rændur ró sinni og hamingju af nútímanum.  En ég verð að finna nýja leið að hamingju minni - mitt ferðalag liggur inn á við í ró hugans og innri hamingju.  Hamingjan býr nefnilega ekki í næstu götu heldur innra með sjálfum mér.   


"Eins og þú sáir munt þú uppskera" Framsókn og Siv Friðleifsdóttir!

Kosningarnar búnar og allt er hljótt aftur.  Eina kippinn sem ég tók var þegar ég hélt að frjálslyndir ætluðu að semja við sjálfstæðisfólkið!  En það leið hjá sem betur fer og allt varð aftur eins og það var og á að vera? 

Menning eða ekki allaveganna eru stjórnmál eitt af mörgu sem snýr lifshjól mitt.  Þó ég skilji ekki alltaf - ísmann sem er í gangi þá fær það mig til að hugsa.  Og furða mig og ég hætti aldrei að verða hissa !!

"Allt sem gerist í lífinu er vegna þess sem er í vitund þinni. Lyftu vitundinni og þú lyftir allri tilveru þinni og viðhorfi til lífsins. - Barnsleg og að því er virðist einföld  mannvera á léttara með að taka við guðsríki en hin greindasta sem heldur að hún þekki öll svör með huganum." E.C.

Svo satt sem þetta er skrifað!  Listin að lifa er í raun svo einföld.  Sleppa takinu og láta sig gossa inn í það!  Úpps er það bara þannig? Held það, vandinn er að við hugsum of mikið -Og lifum of lítið og erum sjaldnast í augnablikinu heldur einhversstaðar allt annarsstaðar. 

Framsókn gerir lífið skemmtilegra.  En lítið skil ég í fréttaflutningi og sögusögnum um framsóknarheiminn! Ætti að vera einfalt að leiðrétta skekkjuna frá því um árið.  Þegar nýr maður sveiflaði sér inn á þing og í ráðherrastól og flokkurinn fór að hallast ískyggilega.  Svo fór hann í annað starf í musteri mammons.  Svipað og annar sem nú er talað um að komi aftur inn og lagi hallann.  Hvað með sjálfsvirðingu og blessaðan trúverðugleikan?  Hvert fór virðing flokksins fyrir kjósendum?  Enda uppskeran rýr! 

Hvað er að fólki?  Lausnin hlýtur að liggja innan flokksins alveg eins og vandinn.  Og lausnin er Siv Friðleifsdóttir - einfalt og þessvegna þarf þor til að gera rétt og fylgja hjartanu.   

Trúverðugleika, greind og dugnað í flottu ívafi með kjörþokka hvað viljið þið meira? En nóg um þetta vonandi ber flokknum gæfu og kjark til að velja rétt.

Það er að koma sumar smátt og smátt og mannlífið verður bjartara. Það eina sem háir okkur er heimatilbúinn tímaskortur.  Vinnuþrælkun hugans og bull eins og að vinnan göfgi manninn er sáð í okkur við fæðingu.  En allt hefur sína kosti en líka galla og okkur væri nær að skoða galla okkar og breyta þeim í kosti.  Lífið verður svo óumbærilega auðveldara þannig.  

Stundum virðist allt vera að versna í kringum okkur.  En við verðum að ná þráhyggju hugans úr okkur. Græðgin, hatrið,  öfundin og eigingirnin hreinsast ekki burt fyrr en það kemur upp á yfirborðið þannig er það með öll kýli - stinga verður á þau.  Lífið er þannig líka  og ég vil ekki flækjast inn í þessa ringulreið lengur.  Ætla mína leið sem núna er ekki þessi venjulega útgengna leið vanans og óttans. 

Segi hér með upp og held mína leið! Góða og gleðilega Hvítasunnuhelgi.................................. 

 


Dægurmál? Menning eða lífsstíll.

Kosningar nálgast og baráttan meira áberandi. Loforð fljúga hátt í takt við lífsstíl kjósenda og farið að bera á yfirboð.  En oftast er of hátt flogið og of hátt boðið.  Trúverðugleikinn víkur fyrir óttann við að missa af sæti við valdaborðið.  

Allir virðast mér taka núverandi lífsstíl kjósenda sem sjálfsögðum.  Engin kemur með róttækar hugmyndir um samfélagslegar breytingar.   Engin spyr er það þetta sem við viljum!  Viljum við þennan hraða, þessa óheftu græðgisvæðingu, manneskjufjandsamlegu fjölskyldustefnu eða þennan yfirgang á aldraða og öryrkja??  Þetta er að verða dýrkeyptur lífsstíll fárra á kostnað meirihlutans!

Mér finnst lífsstíll okkar svo lygilega yfirborðskenndur.  Við virðumst lifa lífi sem er eins og ganga á ofurþunnum ís! Ekkert má gerast þá kemur sprunga og jafnvel vök.  Og hvað gerum við þá?

Það hefur alltaf legið fyrir hvert húsnæðismálin mundu þróast! Með glæfralegum lánum á hátindi markaðsverðs.  Segir okkur líka hvað eignastefnan er úrelt fyrirbæri!

Það liggur fyrir að með núverandi eltistefnu við "græðgislífsstíl" verðum við meira ein og utanveltu. Byggjum sífellt fleiri heimili frá vöggu til grafar.  Því engin hefur tíma!  Alltaf erum við með dýra matinn og háa búsetukostnaðinn.  Og aldrei gerum við neitt í þessum grunnatriðum lífsins. 

Vilja ef til vill einhverjir bara vera heima og sjá um börnin sín? Vilja einhverjir búa í góðu húsnæði á góðum kjörum?  Vilja einhverjir borða mat sem er eldaður fyrir viðráðanlegt verð í stað skyndibitans sem kostar svo meira.  Vilja einhverjir streituminna samfélag? 

Erum við hugsanlega að búa til samfélag sem við viljum í raun ekki búa í ??  En engin segir neitt!   Ekkert sem verið er að gera í dag bendir til þess að verið sé að snúa blaðinu við eða gera stefnubreytingu.  Ekkert bendir til þess að kjósendur séu að krefjast þess heldur!!! 

Allt tal um tekjutengingar lífeyrisgreiðslna og bóta eða tvöfalda skattheimtu á lífeyri! Allt tal um lágmarkslaun, skattleysismörk, persónuuppbót og fleiri er aðeins spurning um forgangsröðun.  Hvað viljum við fá út úr lífinu? Hvernig lífsstíl kjósum við að lifa?  Eða á bara jafnvel að skila auðu? Yppta bara öxlum?  Er engin að líta upp úr drullupolli græðginnar og sjá allan dómgreindarskortinn?  

Hætta er á að við missum af öllu því góða sem er að gerast vegna álags við að lifa bara einhverskonar lífi.

Hvaða lífsstíl viljum við? Ég vil breytingar og nýjar áherslur kanski bara nýjan flokk fyrir kjósendur.

Það snjóar fyrir norðan! Þetta er Ísland í dag.  


Stjórnmál - menning og list?

Ég upplifi stjórnmál sem menningu og list.  Stjórnmál fjalla um lífið og lifið er list.  Menning á ensku er "culture" sem þýða má sem menningu, siðfágun eða ræktun.  Siðfágun er fágætt fyrirbæri sem lítið er gert úr í nútíma samfélagi. Siðfágun er fegrun og lagfæring siða.  Að vera siðfágaður er að sýna sjálfum sér og öðrum virðingu! Að vera siðfágaður er að vera heiðarlegur og sjálfum sér samkvæmur.  Að vera siðfágaður er að njóta lífsins á forsendum lífsins og sýna gott fordæmi í orði og á borði.  

Að rækta samband sitt við lífið er að rækta sjálfan sig og aðra, að  halda utan um auðmýktina fyrir lífinu,  að dást að fegurðinni allstaðar og undrandi sjá hana oft þar sem síst skyldi halda að hún feldi sig.  Hneigja sig og bjóða lífinu upp í dans.  Rækta samband sitt við daðrið sem lífið þarf svo á að halda. 

En einhverstaður einhverntímann duttu stjórnmál úr tengslum við nútímamanninn.  Kjaftapólítík kalla sumir stjórnmál dagsins í dag. Talað og lítið gert? Veit ekki en samt virðist sannleikskorn í þessu.  Loforðapólítík,  er list sem verður að engu ef hún er stunduð fyrir kosningar og svo gleymd þess á milli.  Að snúa áður gerðum loforðum upp í andhverfu sína er list sem mér finnst margir stunda og kunna í ofan á lag því miður illa.   Og einhverntímann var það einfaldlega kallað að svikja loforð eða stunda loforðaþvætti.   Menning er lífið þetta daglega líf og lífið er t.d. mengunarlaust loft til að anda að sér.  Menning er grænt gras til að ganga á.  Menning er myndlist, tónlist, veggjakrotalist og sönglist  og fólk sem hefur tíma til að njóta menningarinnar.  Tíminn í sjálfum sér er list og við þurfum tíma til að njóta menningarinnar.  Jarðgöng eru menningarlist sem skapa tíma og tengja okkur saman og svona má óendanlega halda áfram. 

Bútasaumur -  er listgrein sem ekki gengur að nota við skipulag á höfuðborgarsvæðinu!  

En það er lítil list í því að deila fram og aftur um vegi og brýr og byggja endalaus geymslurými fyrir börn og aldraða. Ef það er eingöngu til þess að við  hin getum misst okkur í græðgi og svalað fýsn okkar í meira dót.   Það er ekki menning og enn síður list að partaskipuleggja höfuðborgarsvæðið og sjá aldrei heildina ef það er valdagræðgi sem aftrar okkur frá því að gera rétt og vinna saman.  Þetta bútasaumsskipulag í stað heildarýfirsýnar verður okkur dýrkeypt í framtíðinni.  En við ávísun alltaf á framtíðina. 

Menningarheimur smákónga okkar. 

Lífið er fullt af smákóngum í turnum sínum sem halda aftur af framförum og listsköpun hins daglega lífs okkar af ótta við að missa vald sitt.   þess vegna er svo ósegjanlega vitlaust forgangsraðað í opinberumkerfum.  þessvegna hefur engin alvöru áhuga á forvarnarstarfsemi sem er í stjórnmálum.  Þetta tekur of langan tíma og pýramídastjórnkerfið einfaldlega best fyrir kónginn þaðan má deila og drottna.  Það eru menningarleg slys hvernig sjúkrahúsmálum og húsnæðismálum er stjórnað.   Fólk er aldrei í fyrirrúmi heldur óljósar þarfir hins hrædda stjórnanda í kerfinu.  Og óttastjórnuð græðgi heitir það víst líka að vilja ekki eða þora ekki að sleppa og leyfa öðrum að taka þátt í þessari stórkostlegu listsköpun sem líf okkar er.

Auðvitað er lífið list en ef gremja og öfund er látið ráða ferðinni verður svo erfitt að njóta hennar.  

Allt verður svo fúlt og við verðum þessi þunglynda og streitukennda þjóð sem er alltaf hamingjusöm í skoðanakönnunum.  Við lifum í sýndarveruleika sem við þorum ekki að stíga út úr.

Því ef við gerum það tekur lífið við og hversdagleikin í allri sinni dýrð og spurningin er hvort við ráðum við það.   Að sjá listina í hrafninum á girðingunni, í þvottinum sem blaktir á snúrunni,  í húsinu sem er í byggingu og hinn naglhreinsandi hamingjusama mann fyrir utan.  Getum við lifað í sátt við Guð og menn án þess að langa alltaf  í það sem nágranni okkar á? Ég veit ekki en það er áhugaverð list að sjá það fyrir sér og reyna að móta þessa drauma í raunveruleika okkar.

Gleðilegan 1. maí........................ 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband