21.9.2006 | 11:35
"Ég geng í hring"
Steinn Steinarr er í fyrirsögninni svo eitthvað huglætt hlýtur að koma eftir slikan inngang? Er að hugleiða þessa stundina að 358 dagar eru eftir af mínu næsta afmælisári. Og ætla ég að ganga í hring í kringum allt sem er og innan þessa hrings er veröld "þín" og aðeins horfa inn um gluggan á lífið? Er hugsa um skrifa af og til um framgang eða afturgang minn þessa nefndu daga.
Hvað vil ég svo að verði úr mér? Venjulegur maður, óvenjulegur gaur eða kanski ég leiti að mér? Í bókinni sem ég les á morgnana stendur m.a. " Áætlun mín fyrir þig er fullkomin og mun ganga upp á nákvæmlega réttum tíma. Vertu ekki óþólinmóður, lærðu að bíða allt á sér rétta stund. Hræðstu ekkert en vertu sterkur og hugrakkur. Haltu áfram í algjöru trausti og trú og leyfðu undrum mínum að koma í ljós."
Ég veit að þessi venjulegi ég býr innra með mér og ég finn hann í algjöri hugarró og innra friði. En ég efast sífellt og óttinn við breytingar er eða hefur verið öllu yfirsterkari. Hvernig öðlast ég kjark til að brjótast út úr viðjum vanans og lærðrar hegðunar og leita inn í leyndardóm þann er býr innra með mér? Ég er orðinn vanur að vera það sem ég held að hver stund og hver viðmælandi vilji að ég sé! Ég er gjörsamlega týndur og orka mín fer í að lesa hugsanir annarra og vita alltaf hvað þau hugsa og haga mér svo eins og ég held að þau vilji!! Líf mitt hefur verið hrunadans í leit að viðurkenningu og samþykki. Líf mitt hefur verið held ég allt nema mitt! Kannast einhver við þetta?
Næstu 358 dagar verða smaladagar mínir. Dagar sem ég vil nota í að finna bitana í púsluspil lífs míns og raða saman eins vel og ég get. Mér er það eflaust til happs að ég trúi að til sé kraftur máttugri mínum vilja. Annað væri alheimsmet í hroka! Minn vilji leiddi mig hingað að tölvunni í leit að sjálfum mér. Í bæninni finn ég að það losnar um eigingirni mína og óttinn við lífið minnkar. Afhverju er ég þá ekki duglegri í bæn og hugleiðslu? Ég er enn að reyna að stjórnast í öllu og lítið hefur áorkast. Afleiðingin af mér sem forstjóra lífs míns er sjálfskipuð útlegð frá flestu sem mér þykir vænst um. Það er nefnilega erfiðast að eiga við fólk sem er ekki sama!! Og ég get ekkert í vanmætti mínum nema lokað mig frá öllu og öllum. Sjálfskipuð konungleg einsemd er afleiðingin af mér í forsæti.
Þá er komið að því að taka skrefið og láta gossast inn í óvissuna. Ég finn það ef ég gef mér tíma og leita inn í kyrrðina þá koma önnur svör en ég átti von á. Svör sem eru frá mér en samt frá krafti máttugri minum vilja. Svör sem koma innst úr fylgsnum mínum sem voru harðlæst en bænin hefur opnað rifu og hleypt smá út. Verð alltaf hræddur fyrst því ekki eru þetta mínar hugmyndir um öruggt líf í ró og næði. Nei svörin eru áskorun og krefjast hugrekkis og breytinga frá mínum hugmyndum. Í hugarró og innri kyrrð býr þessi maður sem ég get verið og verð ef ég sleppi og treysti þessi svörum frá minum æðra innri mætti.
Kærleikurinn er sterkasta afl sem til er. Og ekkert hræðir meira en hann. Hann krefst umburðarlyndis og auðmýktar og framkvæmdar í hans nafni. Hugsið ykkur ef kærleikurinn væri alþjóðlega tungumál okkar. Hugsið ykkur ef við segðum stundum hver er minn þáttur í þessu ástandi sem er í heiminum. Ekkert gerist svona af því bara. Allt á sér upphaf og alltaf þarf tvo í tangó. Hver er sök okkar á hryðjuverkum þeim sem eru framkvæmd? Hver er þáttur okkur í fátækt og neyð um allann heim nema rétt hér á okkar eigin bletti? Svörum þessu með leit inn á við í kærleika og hugarró. Framkvæmum svo og ég er viss um að eigingirni okkar og sjálfshyggja minnkar stórlega. Því svarið frá okkar innri vitund er alltaf elskið alla eins og ykkur sjálf og veitið öllum það sem þið sjálf teljið grunnþarfir í mannlegum og kærleiksríkum heimi.
Leiðin er einföld og vegurinn breiður en samt svo erfitt að finna hana. Kærleikurinn er vegvísirinn og ef við spyrjum einhvern okkur æðri um leið og fylgjum leiðbeiningum er ferðin hafinn og engin veit hvert stefnt er.
Ég ætla út í daginn og sjá hvað ég finn ef ég treysti og trúi og geng í vissu um að kærleikurinn er fylgissveinn minn.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.