“Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annarra” (málsháttur?)

  Veit ekki hvort skrif almennt skipta nokkru máli nema fyrir þann sem skrifar?  En hugsanlega er það málið,  að fá eigingjarna útrás fyrir öllu sem hrærist innra með mér þegar ég reyni að fara þokkalega óskaddaður í gegnum daginn?  Er ég bara að gefa öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður?

Hvað vil ég fá út úr því að halda endalaust áfram að fara framúr?  Stíga út í  tilfinningarússibanareið lífsins,  horfa framan í hversdaginn eins og umhverfið og fjömiðlar skrásetja hann?  Svari hver fyrir sig!

En þetta er bara ekki í lagi! Það hvílir neikvæð orka yfir flest öllu sem ég les og heyri frá morgni til kvölds og erfitt að leiða það hjá sér.  En ég geri mitt besta til að taka ekki þátt í niðurrifi og neikvæðri orðræðu í fjölmiðlum, á Alþingi eða í persónulegum samræðum. Hver er tilgangurinn með að anda að sér vonleysi og sífelldar endurtekningar svartsýnis og niðurrifs og ómeðvitað viðhalda ástand og hugsanir sem ég vil losna frá?   

Ég er alltaf óöruggur andspænis breytingum!  Spóla hikandi og fastur í hjólfari óttans og tortryggni og þar af leiðandi kemst ég ótrúlega hægt áfram með nýjar hugmyndir og framkvæmdir. Við virðumst líka sem þjóð spóla og vera vel föst á leiðinni í  leit að betri framtíð.  Eigum svo furðulega erfitt með að koma okkur úr skaðlegum aðstæðum erum í meðvirkri góðri trú ófær um að standa með okkur og okkar hugmyndum.  Erfitt með að horfa heiðarlega í spegilmynd drauma okkar og langanir og fylgja þeim draumum eftir. Einhvern veginn er vont ástand betra en það að stíga út í óvissu,  breyta og fara nýja óþekkta leið. “Það er gott að þjást” sagði aðili alltaf við mig þegar ég ræddi breytingar!  Ég þekki þetta ástand vel og er ánægð í óhamingjuminni af því ég þekki hana.  Farðu annað með breytingar þínar!

Samningar eru lausir og launafólk/vinnuveitendur/opinberir að semja um betri framtíð? Eða er það?  Mér virðist allt fast í úreltum hugmyndum og ótta við að breyta og taka nýja stefnu. Er það raunveruleg kjarabót,  sífelldar endurtekningar á prósentuhækkun launa sem hverfur á morgun út í hærra verðlag og deilum um gildistíma?  Væri vitrænt að ræða um styttingu vinnutíma, frítekjumörk, lágmarkslaun, vaxta/leigubætur, tekjutengingar, skatt á matvæli, bensínverð, nýsköpun, húsnæðismál og áhrif almennra breytinga á vísitölu lána. Vísitölu sem virðist eiga sér sjálfstætt líf.  Nema þegar um tekjur er að ræða.            

Unga fólkið, atvinnulausir, skólamál, heilbrigðismál og forvarnir má tengja þetta saman?  Sparnaður dagsins er virðist mér kostnaðarsöm framtíð næstu kynslóðar. Og  það er staðreynd að leiðir fólks sem þarf aðstoð eru of flóknar og kerfið óneitanlega svo lítið að viðhalda eigin lífi fremur en að veita upplýsta aðstoð til þeirra er þurfa að leita hennar.  Enn virðist skortur á að upplýsingar séu skýrar, einfaldar og leiðbeinandi og að samskipti á tölvuöld spari fólki sporin og pappírinn.

Veit einhver hvað forvarnir eru? Held ekki,  því við erum í dag að spara aurinn og kasta krónukostnaðinum inn í framtíðina. Dýrar skammtímaaðgerðir gerðar í getuleysi og skorti á þolinmæði til að sjá inn í framtíðina vegna m.a. óstjórnarlegrar þarfar og krafna um að laga augnablikið og það núna strax.  Fyrirhyggja og nýsköpun í orði og á borði skortir á of mörgum stöðum.

Samtal, samræða, samvinna, samhugur, samvera, samheldni,samhygð, samhryggð,  sameina, samfagna, sambýli, samhæfa endalausar hugmyndir eru til um sameiginlega þætti í lífinu.  Hvað gerist ef við skeytum “ein” eða “sér” framan við orðin hér á undan?  Eintal, einræða, einhæfa eða sérhæfa, sérbýli, sérhygð þetta eru hugmyndir sem eru að móta allt of stóran hluta ákvarðanna okkar. 

Kanski eitthvað fyrir Alþingi að hugleiða? Margt gott hefur gerst undanfarið, við erum átaksþjóð og góðar hugmyndir verið settar í framkvæmd.  En það ríkir skortur á nýsköpun og frjórri hugsun þar sem valdið liggur og þar af leiðandi breytist svo lítið þegar framtíðin er hugleidd.  Það er brýnt að starfa að nýsköpun um leið og fyrirhyggja og forvarnir eru efldar til að forða framtíðarslys.   

Meðvirkni stafar m.a. af lærðri hegðun í æsku,  af því hvað okkur var kennt og hvaða and- og félagsleg verkfæri við fengum með okkur inn í fullorðinslífið.  Þetta á líka við okkur sem þjóð.  Við erum fyrir skömmu að koma úr nýlenduhugsun og torfbæjum þar sem harkaðu af þér og hættu þessu væli hugmyndin gilti.  Erfið afkoma, fátækt, léleg sjálfsmynd og minnimáttarkennd er enn að móta líf okkar.  Við erum annað hvort best eða einskis virði!  Sem einstaklingar og þjóð þekkjum við illa milliveginn. 

Hvaðan við erum að koma segir mikið um hver við erum og hvernig okkur líður en ekki að við verðum að vera eins og óbreytt áfram að þetta séu “örlög” okkar.   En ef ekkert er gert – gerist ekkert!  Við getum breytt deginum í dag og framtíð okkar með nýrri sýn og nýjum framkvæmdum.              

Peningurinn er til en það virðist hafa verið vitlaust gefið frá lýðveldisstofnun.  Fjárlagagerð gamaldags og úrelt fastmótuð fjárlög sem full þörf er á að endurskoða hvernig eru sett upp og hvernig sameiginlegum sjóðum okkar er þar skipt upp. Ekki skortir okkur kjark og dug frekar þolinmæði, ró, æðruleysi og aðgæslu til að trúa því að nýir hlutir geti fært okkur nýtt og betra líf.  

Opnari einlægari, heilsteyptari, heiðarlegri, hugrakkari, kærleiksríkari umræða og meiri nánd í samskiptum er brýnt.   Enn erum við of mikið á yfirborðsmennskunni að klóra í bakkann og það er sársaukafullt að spóla í gamla farinu og sjá mistökin endurtakast. En við erum á leiðinni en betur má ef duga skal og nú er nauðsynlegt að gera alvöru úr öllum hugmyndum sem færa okkur nær nýrri og gæfuríkari framtíð.  Vinnum saman að lausninni, verum saman á leiðinni og lifum saman í landi framtíðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Fáðu þína útrás og njóttu vel. Ef þú vilt að einhverjir aðrir lesi það sem þú skrifar ættir þú að skipta textanum upp í greinar og nota greinaskil. Hafði samt þökk fyrir viðleitnina.

Hörður Þórðarson, 30.3.2011 kl. 04:31

2 Smámynd: Hörður Þórðarson

Kærar þakkir fyrir að laga þetta, og takk fyrir gott blogg.

Hörður Þórðarson, 30.3.2011 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband