Sérlundað aungþveitisfyrirkomulag húsnæðismála á Íslandi.

Vaxta- og húsaleigubótastefnan er löngu úr sér gengin og hefur um langan tíma verið ónýt sem tekjutengd aðgerð vegna íbúðarkostnaðar.  

Gott að heyra að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að gera úr þessu einar húsnæðisbætur (löngum verið skoðun undirritaðs) óháð tegund húsnæðis. En það er auðvitað ekki nóg. Uppbygging vaxtabótaútreiknings hefur lengi verið ónýtur og leigubætur úr takt við raunkostnað. 

Allar tekjutengingar þarf að endurskoða í heild sinni. Í raun ætti að kalla húsnæðiskostnaðar endurgreiðsluna "húsnæðisgreiðslur" því þetta eru endurgreiðslur úr eigin sjóðum landsmanna. Barnabætur td. fjölskyldugreiðslur í raun ætti að breyta öllu bótaheitinu í -greiðslur. Þetta eru peningar sem eru sameign og svo til endurgreiðslu þar sem þess þarf.

Engin er að fara fram á ölmusu eða fátækrahjálp en það er viðloðandi tilfinning sem margir finna fyrir sem eiga í samskiptum við ríki eða sveitarfélög. Ég er að gefa þér ölmususkilaboðin liggja oft í loftinu. Breytum þessari hugsun í kerfinu og hjá okkur öllum.

Árið 1999 var húsnæðislöggjöfinni breytt og félagslegir þættir hennar nánast þurrkaðir út. Ekkert kom í staðinn í nýrri löggjöf sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Ljóst var að húsnæðislán átti að stefna til bankanna. Núverandi forsætisráðherra hafði þar á undan verið síðust til að breyta lögjöfinni í átt að félagslegu jafnræði.

Ég vann í rúm 15. ár hjá  Byggingarsjóði verkamanna síðar félagsíbúðadeild Húsnæðisstofnunar ríkisins. Reynslan þá af 90% og 100% lánum til þeirra er voru innan tekjumarka var góð. Farið var vandlega yfir umsóknir vegna 100% láns og aðeins lánið vegna sjálfrar íbúðarinnar.  Vanskil hjá þeim sem fengu þessi lán voru minni en annarra sem fengu lán hjá Stofnuninni á þessum árum.

Það var árið 1998 ljóst að breyta átti öllu húsnæðislánakerfinu. Við bentum á að litlar breytingar þurfti að gera á reglum vegna félagslegra íbúða svo lánasjóðurinn gæti lánað með fjölbreyttara hætti. Engar byltingar voru nauðsynlegar.  Sjóðurinn hefði reynst bjargvættur þúsunda í nær 60 ár. 

Hægt hefði verið að gera einn lánasjóð með félagslegri áherslu án byltingar og án þessari græðgisvæðingu sem varð við flutning í bankana.  Og allt unnið út frá tekjum, fjölskyldustærð, íbúðarstærð og kaupverði íbúðar. 

Og þetta tengt við húsnæðisgreiðslur sem átti að halda húsnæðiskostnað innan ákveðinna marka miðað við tekjur viðkomandi aðila.

Bankarnir mundu svo lána þeim sem vildu byggja áfram sín risahús og vera með 50 fermetra á mann! 

En stjórnmál eru skrítin og pólítískur óvilji sjálfstæðis- og framsóknarfólks var slíkur gagnvart þessu "vinstrimanna lánakerfi" sem núverandi forsætisráðherra hafði síðast lagað með ágætum að engu tauti var komið við ráðandi flokka.

Það endaði svo í veðtryggðum neyslulánum bankanna og hækkandi húsnæðisverð sem mörgum sem unnu við íbúðarmál vissu að aldrei mundi haldast til lengdar.  Vitað var af reynslu af verðbólgunni og markaðssveiflum frá sl. áratugum að staða lána yrði væntanlega fljótt hærri en söluverð íbúðar og gjaldþrot eina leiðin út úr ósköpunum við lagaumhverfi og aðstæður þess tíma.  Laun mundu ekki hækka viðlíka og bætur frá ríki og sveitarfélögunum ekki halda í við breytingar á kostnaði vegna "eigins"  húsnæði.

Þetta samspil eða ferli húsnæðisverðs, tekna og greiðslugetu, gjaldþrota hefur löngum legið fyrir að mundi skella á,  ef út í svona eftirlitslaust lánafyrirkomulag yrði farið.  En stjórnmálafólk hlustaði ekki og blekkti með allskonar útreikningum frá lánveitendum og sjálfum sér.

Að lokum nær væri að kalla þessar íbúðir með lánum sem eru nær 100% leiguíbúðir og aftengja þær markaðssveiflunum með öllu. Eins og eldra niðurlagða félagslega íbúðarkerfið var í raun.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband