26.12.2009 | 11:45
Draumur eða veruleiki þess sem ekkert eða engin er!
Stutt lýsing á staðreyndum augnabliksin. Autt svið, myrkur, einn kastari beinir daufu ljósi að einni manneskju. Konu um fertugt, frekar hávaxna. Hún er sterkleg en grönn með hálfsítt rauðbrúnt hár, dökkrautt naglalakk og tekið andlit, klædd í efnismiklum síðum kjól..... Ég sit einn í miðjum salnum og horfi á þessa veru sem stendur í kastaraljósinu bein í baki. Hula sorgar virðist umlykja hana. Hún horfir óörugg og leitandi í kringum sig fram í salinn svo heyri ég hana segja hásri röddu eins og við sjálfa sig .................................................................................................... Hvað gerðist? Hvar er ég? Hvað varð um síðastu nótt? Skyldi ég hafa hitt einhvern sem þekkir Karl Ágúst? Getur einhver hérna svarað? Ég man ekkert sjálf? Kjóllinn minn er þvældur eins og hnykkur hafi komið á hann og ég er þreytt svo þreytt. Hvað gerðist eiginlega? Gærkvöldið byrjaði fallega, ég lagði fram hárið, kjólinn, skóna og festina. Fékk mér Sothern Comfort og fór í þrenginguna sem gerir mig að Klöru. Klöru sem sést eftir miðnætti, örugg og falleg. Ég man hvað spennan magnaðist upp innra með mér, einn í viðbót og svo var ég á leið á stefnumótið. Aah, skórnir eru að drepa mig, afhverju er ég ennþá í þeim? Afhverju er Klara hér ein um miðjan morgun? Hann sagði að ég væri falleg, að ég hefði stíl og væri eftirtektarverð kona! Mig langaði að kyssa hann, hlæja , syngja og gráta en svo fann ég depurðina. Ég upplifði ótta, varð reið eins og ég væri í hlutverki sem þeytti mig um líkt og hvirfilbyl. En það er í lagi ég ætla bara að vera Klara, falleg og frjáls. Drekka og daðra vera fallega og skemmtilega Klara. Sælu tilfinningin nistir hjarta mitt svo óendanlega góð í sársauka sínum. Hvað gerðist eiginlega í nótt? Var það ímyndun eða hafði rýtingi verið brugðið á loft? Er einhver hérna?Hann var myndalegur maðurinn sem ég átti stefnumót við. Ekki einn af þessum venjulegu vansælu, vodkadrekkandi ruðningum. En hann átti að þekkja mig, þekkja Klöru. Vita sannleikann! Ég man að seinna um nóttina truflaði eitthvað andrúmsloftið, nálægðin varð meiri, einmitt eftir kampavínið og ljósa krókant Lindu-súkkúlaðið. En síðan er svart myrkur- og svo stend ég allt í einu hér, á sviðinu, ein í morgunrökkrinu. Hverja hitti ég, hvað gerðist, hvert fór ég? Setti hann eitthvað í glasið? Allt í einu er mér ljóst, að nóttin er týnd og hræðslan læðist yfir mig. Það er eins og ég sé stungin með rýtingi, vonbrigði, svik og klækir þyrlast um í höfðinu. Ein í augnablikinu, skynja ég sterkt vanmátt minn og getuleysi, ég mun ekkert gera eða segja. Þessi nótt, var nótt Klöru. Klara gerðist eitthvað sem þarf að óttast? Nei, það held ég ekki. Þetta var bara venjuleg nótt lík mörgum öðrum hjá Klöru? Jæja, verð að skipta um föt núna ég er of seinn og vinnan bíður. Jakkafötin, skyrtan, bindið og dökku skórnir. Já, Karl Ágúst er orðinn of seinn, stimpilklukkan tifar og tíminn líður. Dagsbirtan krefst líka sinn búning og sitt svið. ..................................... ....................................................................... Ég kippist við og vakna, nudda augun og lít í kringum mig í salnum. Ég er einn í myrkrinu en ilmur frá konu berst allt í einu til mín frá tómu sviðinu. Draumur? Veit ekki? En falleg var hún þessi Klara hans Karls Ágústar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.