Eru stjórnmálamenn í raunveruleika okkar, sínum eða engum?

STJÓRNMÁL snúast um fólk. Mig og þig, venjulega Íslendinga sem lifum raunveruleika dagsins í dag. Stjórnmál snúast um kærleika í verki, gagnkvæma virðingu, umbyrðarlyndi og skilning á grunnþörfum manneskjunnar.

Í gamalli bók segir að "hinn vitri maður deyi pínulítið á degi hverjum á meðan hann fer frá gömlum hugsunum, leiðum fortíðar og vana og lærir að hugsa og lifa upp á nýtt".

Er ekki komin tími til að gera eins og hinn vitri maður? Fara nýjar leiðir og hugsa upp á nýtt. Þora að breyta því sem verður að breyta, ekki staga það götótta og slitna. Hver er lágmarks þörf okkar? Friður, ferskt loft, gott hollt vatn, fersk matvæli á góðu verði og gott ódýrt húsnæði er það sem öllum er nauðsynlegt. Í þessari upptalningu liggur galdur kraftaverksins.

Verðum fyrirmynd á borði ekki bara í orði. Hugsum á heimsvísu en framkvæmum á landsvísu! Verðum friðelskandi þjóð í fararbroddi í umhverfismálum. Við eigum ekkert inni af stríðs- eða mengunarkvóta! Skuldum okkur og niðjum okkar meir en endurgoldið verður. Virkjum ekki í augnabliksálgræðgi, finnum langtímamarkmið þar sem hreint og ómengað land er efst á blaði. Hvað er og verður verðmætara en ósnortið land og vatn sem rennur frjálst til sjávar? Virkjum hugaraflið fremur en vatnsaflið. Nærsýni okkar veldur skorti á framsýni og víðsýni ásamt miklum og langvarandi skorti á þolinmæði. Verum ábyrg, það krefst mikils hugrekkis að fara brautryðjandi leið. Skattleggja verður mengandi eyðileggjandi útblástur bíla og loftfara sem við oft af leti notum til að koma okkur milli staða. Endurnýjum strandflutninga. Hættum að skipuleggja bæina fyrir bíla og setjum fólk í fyrirrúm og ókeypis í strætó. Bannið nagladekk, langflutningabílabrjálæðið og bensínstöðvaæðið og takið af skarið í málum í stað vingulsríkjandi háttalags. Verðlaunið áþreifanlega þá sem með framferði sínu virða umhverfi sitt og annað fólk. Kennum öllum hvað lífsleikni í raun fjallar um.

Matarverð er ekki til að ræða um! Skil ekki umræðuna og veit ekki af hverju er rætt, rætt og rætt! Lækkum einfaldlega verðið á hollari matnum með samræmdum aðgerðum allra sem eiga hlut að máli. Þeir sem vilja annað verða að borga meira.

Húsnæðisumræðan á Íslandi er illskiljanleg. Einhvers konar "stattu þig, drengur" steinsteypuhugsjón virðist ríkja. Hálfsjálfstæður gervimarkaður er til staðar sem við sveiflum sjálf með háfleygri síbylju sjálfskipaðra en misviturra álitsgjafa. Íslenska vísatalan er einn mesti bölvaldur notenda íbúða í dag. Markaðsverð og áhvílandi lán sveiflast óháð hvort öðru! Oft í sitt hvora áttina með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hriplekt, margstagað og úrelt vaxtabótakerfi og ómarkvissar húsaleigubætur eru í gangi. Samsetning og þ.a.l. áhrif lánskjaravísitölu er furðuverk sem verður að skoða.

Gerum það að markmiði að nota að hámarki 25% af tekjum í íbúðarhúsnæði. Endurgreiðsla verði miðuð við samspil fjölskyldu- og íbúðarstærðar og tekna. Notum endurgreiðslukerfið til að stjórna. Notandi eðlilegs húsnæðis fyrir fjölskyldu sína á að vera óháður braski á íbúðamarkaði og lánskjaravísitölu. Komum á húsnæðisbótum til notenda íbúðarhúsnæðis óháð hvort um eignar- eða leiguíbúð er að ræða.

Ljóst er að þegar lánað er 90% jafnvel allt að 100% við íbúðarkaup er skráður eigandi ekkert að eignast næstu áratugina. Allt fer í vaxtagreiðslur, stimpilgjöld og síhækkandi fasteignaskatt. Ef svokallað markaðsverð íbúðarinnar lækkar og lán hækkar með vísitölu er hann fljótt kominn í erfiða stöðu. Áhvílandi lán eru hærri en söluverð íbúðarinnar. "Eigandi" verður kannski að losna en getur ekki selt. Eina leiðin er að hætta að borga, láta bjóða upp og gerast vanskilamaður. Góðir frambjóðendur til Alþingis, er þetta boðlegt? Er ekki eðlileg lágmarkskrafa hvers og eins að lifa í friði og sátt í öruggu húsnæði, anda að sér ómenguðu lofti og borða mat á viðráðanlegu verði. Ótrúlegt hvað við kjósendur látum bjóða okkur af innihaldslitlu og drýgilegu tali.

Alþingi og ríkisstjórn eiga að koma þessu í verk en virðast alveg gjörsamlega vanhæf til að skoða mál frá grunni og breyta og forgangsraða í framhaldi af því.

Þetta séríslenska fyrirbrigði, að gott sé að þjást mátulega og ekki slaka of mikið á, er ekki boðlegt lengur. Öryggisleysi notenda húsnæðis, matar, lofts og umhverfis er nær algjört. Mér er misboðið þegar ég hlusta á tal margra frambjóðenda til þings. Ekkert nýtt, engin hugsjón eða fegurð í framtíðarsýn þeirra. Ríkjandi er stöðnun og getuleysi til að skoða frá grunni líf okkur og stöðu. Getuleysi til að standa með hugsjónunum og sýna þolinmæði.

Vegna þessa alls er brýnt að skipta um ríkisstjórn. Vonandi að Samfylking og Vinstri grænir beri gæfu til að sjá að markmiðin eru þau sömu. Hreint loft, fagurt land, ódýr hollur matur og öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum. En af hverju efast ég smá um að eitthvað breytist? Ekkert minna en hugarfarsleg bylting er nauðsynleg og núna er tækifærið – standið upp og takið höndum saman – drífum í þessu.

Höfundur er félagi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband