12.3.2007 | 22:26
Hungur í kærleika og líf í deginum?
Eins og alltaf verð ég orðfár (fár er gott orð) þegar er spurt, er lífið svona? Hvað veldur því að við "vitsmunaverur" gerum það sem síst skyldi gera? Afhverju troðumst við á náunga okkur í daglega lífinu eins og á stórútsölu á lífsgæðum? Sjálfhverfan er trúartákn þjóðar sem er ófær um að takast á við hið daglega líf án hjálpartækja. Líf okkar gæti verið partý en við höfum ekki tíma.
Sífelldar eftiráreddingar er leiðin sem við í óþolinmæði förum eins og um rallíakstur væri að ræða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur styrt en framsókn skipt um gír síðustu árin. En samt er upplifunin eins og keyrt sé áfram með augun í bakkspeglinum- engin framtíðarsýn. Og svona athæfi getur aðeins endað með brakandi ákeyrslu! Og reddingarmeistarnir geta engu reddað meira "þetta verður bara að vera klessa".
Oft er ákeyrsla nauðsynleg stundum þarf ástandið að versna áður en það getur lagast. Þannig þarf hatur, græðgi og eigingirni að koma upp á yfirborðið áður en það hreinsast burt.
En nú er nóg komið finnst mér. Kominn tími á endurreisn kærleiksríks samfélags sem byggir á rétti allra til mannsæmandi lífs og réttlátan hluta af þjóðarkökunni.
Hættum að yppta öxlum yfir óréttlæti sem aðrir verða fyrir. Okkur kemur það við hvernig náunga okkar líður. Hættum að bíta á jaxlinn þegar við verðum fyrir vonbrigðum. Lítum ekki undan þegar vonleysið birtist á skjánum og angistarfull þögul augnaráð hrópa á hjálp. Hættum að vera áhorfendur að lífinu verðum þáttakendur. Gerum eitthvað, framkvæmum og vinnum í málunum.
Forvarnarstarfsemi er í skötulíki hér. Engin þolinmæði í skipulagi og fjármögnun. En samt vita allir að forvarnarstarf er grunnur að því að hægt sé að draga úr kostnaði vegna sjúkdóma, slysa og t.d. vandamála sem tengjast geðheilbrigðismálum almennt. Meðferðarúrræði vegna alkóhólísma eða fíkniefnaneyslu að öðru leyti er ekki til hjá opinberum aðilum. Hvað þá vegna annarra fíkna eins og átröskunar eða spilafíknar. Félagasamtök reyna sitt besta en ríkið þvær hendur sínar og segir "ekki benda á mig". Engin ábyrg heildaryfirsýn er til eða markmið sem hægt er að taka alvarlega. Þetta er þolinmæðisvinna sem stjórnmálafólk í dag hefur ekki getu til að sinna.
Víkjumst ekki undan ábyrgð krefjumst réttlátara húsnæðiskerfis. Þetta sem er í gangi er tóm endaleysa. Allir að veita lán sem festa okkur í fjötra lánastofnana um allann aldur. Horfumst í augu við frambjóðendur til næsta þings og gerum kröfur um að staðið verði við loforðin stóru um betra og einfaldara líf. Bylta verður fyrirkomulagi húsnæðismála og koma á einfaldara og réttlátara kerfi. Miklu nær er að koma upp leiguíbúðum með hlutareign eða án! Við eigum í raun ekkert í þessu húsnæði eins og allt er í dag. Bankarnir og Íbúðalánasjóður eiga þetta og okkur.
Ein lánastofnunin auglýsir "borgið bara vexti í fimm ár -jafnvel 100% lán". Ótrúlegt að setja fólk í svona ánauð hjá lánastofnun og bankinn er að eignast, ég borga vexti. Tilhvers er þessi vitleysa sett á svið?
Verum ekki áhorfendur og þiggjendur að eigin velferð og lífi. Tökumst á við ábyrgð og skyldur og gerum kröfur um uppstokkun á velferðarkerfinu og að gefið verði aftur. Gefið verði aftur undir okkar eftirliti. Við eigum þetta land og þennan ríkissjóð og ráðum því hvernig hann verði notaður okkur til góðs. Er leiður á útrás víkinga og kauprétti dagsettum í fortíðinni og greiddir út í ímyndaðri framtíð. Skil ekki þessar milljónatugi á mánuði eða milljarða og sæti á forbeslista. Allt er þetta gott og blessað er ég verð að fá meiri nánd. Líf mitt er hér og nú í deginum í dag með þeim peningum sem til eru í dag. Við skulum líta inn á við og gera innrás í ríkissjóð og skipta upp á nýtt.
Bylting er nauðsynleg og aðeins spurning um festu, ákveðni og hungur í kærleika og réttlátt líf. Bylting er nauðsýnlega vegna þess að ekkert er að gerast í grundvallaratriðum lífs míns sem einstaklings hér og nú. Endurskoðun á velferðarkerfinu frá grunni með hagsmuni allra að leiðarljósi er fyrsta verkefni nýrrar stjórnar. Hungur okkar í kærleika er svo augljós þegar við skoðun okkur í grunninn. En við eltum í blindni græðgisguðinn erum í endanlausum tímaskorti hjúpuð vanmætti okkar til að staldra við og horfast í augu við okkur sjálf.
En samt er gaman það er nú hin hliðin á peningnum. Það er gaman af því að allt er hægt vegna þess að allt er til. Hef bara ekki rétt spil á hendi í dag en ég breyti því. Verð í vinningsliðinu eftir kosningar með ykkur.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:38 | Facebook
Athugasemdir
Vel mælt, löngu kominn tími á góðar breytingar og meiri manngæsku!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.3.2007 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.