22.10.2013 | 11:30
Sífelld endurtekin vitleysa og trúað að ný vitleysa verði betri.
Stjórnmálaflokkarnir, stéttarfélögin og hinn almenni kjósandi með skaðlegri þolinmæði sinni hafa staðið sig með ólíkindum illa! Áratugum saman hefur ríkt stjórnleysi falið í fagurgala og ofurstjórnun og bönnum. Alltaf er spólað í gömlum djúpum hjólförum og ekki komist upp úr þeim. Við erum föst í óraunsæjum hugsunum og lifum í einhverskonar draumi sem aldrei verður að veruleika. Vegna getuleysis verður draumurinn að martröð og hvað skal þá gera? Jú ágæta fólk, það er reynt að gera það sama aftur og aftur og enginn skilur að ekkert breytist. En staðreyndin er að þegar engu er breytt breytist ekkert. Við sökkvum aðeins dýpra í drullunni.
Loforðin eru stór í kosningabaráttunum svo stór að illmögulegt er að standa við þau. Og kjósendur vilja svo gjarnan trúa þeim, trúa á kraftaverkin. Búnar til óraunhæfar væntingar sem verða aldrei að veruleika og engin geta til að viðurkenna ósigur til staðar. Og aftur og aftur er gengið á sömu veggina og klesst. Sama hvaða málefni er skoðað húsnæðismál, öryrkjar-aldraðir, umhverfismál, hjá launafólki eða heilbrigðismál m.m. Eins og ekkert hafi lærst af síðustu áratuga feilsporum, mistökum eða af því sem reynst hefur vel. Eins og haltur leiði blindan og af þrjósku er haldið áfram sama hvað gerist. Það gamla skal reynt aftur kanski verður útkoman önnur í þetta skiptið. Og við sökkvum dýpra. Eina raunhæfa leiðin er að byrja á byrjuninni. Skipta sameiginlegri tekjuköku upp á nýtt í sátt og samvinnu. Endurskoða samfélagið Ísland og rekstur þess frá grunni. Byrja á byrjuninni.
Viðurkenna að óraunhæfu draumarnir verða ekki að veruleika að kraftaverkið lætur enn bíða eftir sér. Að viðurkenna að hlutir breytast ekki við að krafsa í sárunum og setja plástur á það. Það lítur betur út eitt augnablik en undir kraumar gröfturinn og staðreyndin að óbreytt leið gefur ekki nýja útkomu
Skipta verður sameiginlegum þjóðartekjum okkur frá grunni með raunhæfri bókhaldsskoðun og af sanngírni og auðmýkt. Skoða raunverulega og heiðarlega hvað þarf til lágmarksframfærslu að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna. Ekkert er til í dag sem sýnir raun framfærslukostnað þar sem allt er tekið með. Það er allstaðar verið að blekkja einhverjum öðrum í hag en launþeganum. Vegna þessa er aldrei til rétt tekjuviðmið þegar reikna á t.d. út svokallaðar bætur sama hvers eðlis þær eru. Allt er tilbúið og falskt og ekki í samræmi við raunveruleika fólks t.d. varðandi matar- og húsnæðiskostnað. Enda staðreynd að ekki lífir nokkur á lágmarksframfærslu. Hún er fölsuð opinber tala eins og annað sem tengist greiðslum til almennings.
Nú á á semja um launahækkanir og breytingar á húsnæðismarkaðinum og talað um leiðréttingar aftur í tímann. En það breytist ekkert við það! Þetta var jafn vitlaust fyrir ári síðan eða fyrr, þannig að nú á aðeins að flytja vitleysuna fram í tímann. Það breytist ekkert í samanburðinum við þetta og tekjuskiptingin ekkert sanngjarnari þegar vitleysan er flutt áfram án þess að upphafið sé skoðað. Það verður að skoða heildina og skipta öllu upp á nýtt sama hvað allir segja. Má vera að það sé talsverð vinna en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Það var vitlaust gefið í upphafi vegar og síðan hefur vixillinn verið endalaust framlengdur vitleysunni aðeins verið haldið við og engu breytt. Ef eitthvað er þá hefur bilið aukist milli fátækra og ríkra á Íslandi.
Get áfram sagt að mér finnst stjórnmálaflokkarnir og stéttarfélögin hafa staðið sig með ólíkindum illa! Áratugum saman hefur ríkt stjórnleysi falið í fagurgala og ofurstjórnun og bönnum. Engu verið breytt!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.