7.5.2006 | 12:17
Hin spegilslétta tjörn bænarinnar og stjórnmálanna.
Dagurinn í dag er svo fallegur að hann er eins og spegilslétt tjörn. Allt sem gerist sést og hefur áhrif á augnblikið og framhald hans. "Hafðu innra með þér þá kyrrð að hugur þinn sé sem spegilslétt tjörn og þú getir speglað það æðsta án nokkurrar aflögunar. Þá ertu fær um að geisla þínu besta út á við. Leyfðu engu að þvinga þig eða trufla; vertu aðeins fullviss um að allt þróast fullkomlega. " segir Caddy.
Þetta er erfitt í samfélagi dagsins en ekkert er ómögulegt. Bæn og/eða hugleiðsla flytur okkur innri eigin hugarró og styrk. Við fjarlægjumst erfiðleika og þungar byrðar áhyggju eða sorgar verða léttar. Bænin er sterkasta tækið okkur til að finna þessa spegilsléttu tjörn innra með okkur. Því í bæninni í ró hugans hefst leitin innra með okkur og fer þaðan út í lífið! Öfugt við þegar við glepjumst af ys og þys kosningaloforðanna sem svifa í kringum okkur þessa dagana og valda svo yfirleitt vonbrigðum eða tilgangslausri reiði innra með okkur.
Hugarró næst ekki með því að lesa loforð framboðanna til sveitarstjórnakosninga. Brátt verða vandamál ykkur leyst, er sagt í stórum auglýsingum. Treystið okkur og líf ykkar verður léttara. En hættan á vonbrigðum er stór því loforðin eru stór. Sveiflast milli loforða annarra um betra líf fyrir mig og mína! Ég verð að hafa stefnu í lífinu og vera viss um að það sem ég geri er rétt. Og vissan um hvert ég vilji stefna verður að vera innra með mér annars rek ég á reiðanum gegnum lífið eins og skip án stýris.
Ég mundi vilja sjá meiri sannfæringu einhverja sterkari vissu hjá veraldlegum leiðtogum okkar. Sterkari trú á því sem þeir eru að selja okkur. Málefni þessara kosninga verða trúverðugri ef sá/sú sem flytur hann er með þessa spegilsléttu tjörn innra með sér sem speglar sannfæringu út frá sér. Og grunnur allra hlýtur að vera sá sama og takmarkið það sama aðeins leiðin á milli skilur að. Það er nefnilega ferðalagið, leiðin sem er svo spennandi ekki endilega það að ná takmarkinu. Því takmarkið breytist jafnhliða því sem ferðalagið heldur áfram. Hver dagur er nýr grunnur og það sem var takmark gærdagsins er grunnur okkar að breytingum dagsins í dag.
Grunnur okkur er dagurinn í dag og takmarkið vonandi málefni eins og bílaminni/laus borg, grænni borg og meiri tími fyrir okkur að njóta lífsins saman. Ekki endilega með boðum og bönnum heldar frekar með bæn og skilning á þörfum okkar. Jafnvel færri sérbýli og fleiri leiðir til samneyslu og samkeyrslu. Og ekki síst er brýn þörf vegna geðheilsu okkar að endurskoða stofnanavæðingu samfélagsins. Ég vil ekki að besta úrræðið í gegnum lif mitt séu geymslustaðir af allskonar gerðum frá vöggu til grafar. Það má vera næstbest annað hlýtur að skipta miklu meira máli.
Mikið vildi ég óska þess að meiri grunnvinna hefði farið fram hjá flokkunum í framboði. Og að takmarkið væri kærleiksríkara og með sterkari boðskap um manneskjulegra samfélag.
Mér finnst allir eltast við að ná í atkvæði á kostnað kjósenda. Því við gleymumst! Græðgi og flótti frá þessari spegilsléttu innri tjörn er í algleymi. Og hraði alls í dag er ógnvænlegur.
Áttavitinn er úr lagi og við viljum ekki sjá það. En ég er viss um að sá dagur kemur þegar grillir í takmarkið aftur. Sem er einfaldlega þessi margnefnda spegilslétta sólríka tjörn innra með okkur.
Það er sólríkur dagur og ég er á leið út að njóta hans.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 8.5.2006 kl. 08:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.