Færsluflokkur: Bækur
7.6.2006 | 18:59
Hamingjan býr í næstu götu?
Sem barn spáði ég aldrei í hvað yrði um næstu árin hvað þá hvernig verður morgundagurinn. Morgundagurinn var svo langt í burtu og var hulin ráðgáta. Veit ekki hvenær morgundagurinn fór að skipta meira máli en dagurinn í dag. Veit ekki hvenær ég fór að missa af núinu vegna hugsana um hvað mundi gerast á morgun. Það er eiginlega skrítið að vita þetta ekki! Furðulegt að muna ekki hvenær ég hætti að vera til. Hvaða fyrirbæri var það sem kom þessu af stað. Hvað gerði mig ósýnilegan og nánast að engu í samfélagi sem ég lifði í eða átti að vera til í ?
Á barnsárunum bjó hamingjan heima hjá mér var bara þar sem ég var. Ég lék mér, stökk yfir skurði eða var í boltaleikjum. Allt var svo einfalt þar til hamingjan flutti í næstu götu! Já hvernig var þetta? Hvenær fór ég að vera myrkfælinn? Hvenær gerðist það að hamingjan bara flutti í burti frá mér?
Ég man enn einn morgun í lífi mínu sem barn þegar ég og bróðir minn fengum mjólk og brauð í nesti og lögðum í ferðalag út í óvissuna. Allt var svo ævintýranlega stórt og allt svo spennandi. Við fórum yfir girðinguna hinum meginn við götuna. Öðru megin var grísaból sem skrítin lykt kom frá og hávær öskur. Samt var alltaf gaman að hanga á girðingunni og horfa á svínin rúlla og leika sér í drullunni. Svínin virtust svo geðveikt frjáls og líf þeirra svo einfalt þarna í drullupollinum.
Ég og litli bróðir röltum í aðra átt í suðaustur frá grísabólinu. Við okkur blasti tún, hestar og hús sem voru að hruni komin enda úr afgangstimbri og gömlu ryðguðu bárujárni.
Hestarnir litu upp og kinkuðu kolli til okkar. Nokkrar kýr horfðu á okkur stórum alltaf smá hissa augum en kindurnar tóku á sprett. Við gengum áfram í háu óslegnu grasinu, stukkum yfir nokkra illfæra skurði af leikni en samt í smá spennukasti. Hvað ef ég næði ekki yfir en ég var léttur og flaug alltaf yfir. Bróðir minn var seinni í svifum og hikaði oftar og reyndi að finna aðra leið en svifleiðina. Fjöllin voru allt í einu svo stór og svo nálægt. Mér brá vorum við ekki komnir heldur langt að heiman? Bóndabær birtist allt í einu og mér fannst ég kominn inn á gafl hjá ókunnu fólki. Stóðum eins og boðflennur á hlaðinu, snérum við og fórum aðra leið. Röltum áfram og gamall maður kallaði á okkur hálf tannlaust brosið hans var svo furðulegt en skringilega fallegt. Blessaðir drengir á hvaða leið eruð þið spurði hann? Ég svaraði engu leit niður og flytti mér áfram. Seinni vissi ég að þetta var góður karl sem bjó þarna efra og lifði bara sínu lífi. Sæll með sitt held ég en alltaf kallaður nöfnum og talinn skrítinn svona af þeim sem voru ofan í daglega brauðstritinu og höfðu engan tíma til að stökkva yfir skurði.
Við bróðir minn fórum að finna fyrir þreytu og settumst niður í sólinni. Það var alltaf sól á þessum árum bernsku minnar - alltaf heiður himinn. Sat þarna og veit núna að allt var svo allveg allt í lagi. Ekkert sem truflaði ekkert sem hræddi eða angraði okkur. Samt var ekki tómatilfinning! Það var bara allt í lagi, lífið bara var, og mér leið vel. Sagði við litla bróður að við skyldum labba aðeins lengra nær gamla stökkpallinum og fá okkur nesti þar. Framhjá stóra bænum og inn í litla skógin í lægðinni. Við gengum áfram aðframkomnir af þreytu í fótunum. Fjallið fyrir ofan sem er bæjarprýði virtist ógnvekjandi hátt og allt í einu fannst mér ég vera villtur. Settist nær litla bróður mínum og leit á hann. Hann var hinn ánægðasti með snúð og mjólk og ekkert villtur að sjá. Ég sagði, klárum nestið og förum heim. Hann var oft sá sem róaði mig án þess að vita það var hjarta mitt og hugrekki mitt.
Ferðin heim tók rosa langan tíma en heim komumst við. Gengum inn í þvottahúsið og ég kallaði á mömmu sem leit fram til okkar. Allt var í lagi. Þetta ferðalag okkar bræðranna er langt og spennandi í minningu minni. En var í raun styttra og allt öðruvísi veit ég í dag.
Leið okkar hafði legið um stór og villt tún minninganna sem í dag eru byggð af stórum steypukössum og rúmum fjörtíu árum seinna er þetta ekki nema yfir fjórar götur að fara.
Hestarnir, kýrnar og kindurnar farnar og blikkbeljur með hestöflin undir húddinu og gamli maðurinn farinn frá okkur. Hann er nú lánsamur að hafa misst af þessum skæruliðum sem fóru með eldibrandi menningarinnar yfir tún og engi og rændu okkur grasið og frið himinins. Heppinn að hafa misst af því að vera rændur ró sinni og hamingju af nútímanum. En ég verð að finna nýja leið að hamingju minni - mitt ferðalag liggur inn á við í ró hugans og innri hamingju. Hamingjan býr nefnilega ekki í næstu götu heldur innra með sjálfum mér.
Bækur | Breytt 8.6.2006 kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)