Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
7.5.2006 | 12:17
Hin spegilslétta tjörn bænarinnar og stjórnmálanna.
Dagurinn í dag er svo fallegur að hann er eins og spegilslétt tjörn. Allt sem gerist sést og hefur áhrif á augnblikið og framhald hans. "Hafðu innra með þér þá kyrrð að hugur þinn sé sem spegilslétt tjörn og þú getir speglað það æðsta án nokkurrar aflögunar. Þá ertu fær um að geisla þínu besta út á við. Leyfðu engu að þvinga þig eða trufla; vertu aðeins fullviss um að allt þróast fullkomlega. " segir Caddy.
Þetta er erfitt í samfélagi dagsins en ekkert er ómögulegt. Bæn og/eða hugleiðsla flytur okkur innri eigin hugarró og styrk. Við fjarlægjumst erfiðleika og þungar byrðar áhyggju eða sorgar verða léttar. Bænin er sterkasta tækið okkur til að finna þessa spegilsléttu tjörn innra með okkur. Því í bæninni í ró hugans hefst leitin innra með okkur og fer þaðan út í lífið! Öfugt við þegar við glepjumst af ys og þys kosningaloforðanna sem svifa í kringum okkur þessa dagana og valda svo yfirleitt vonbrigðum eða tilgangslausri reiði innra með okkur.
Hugarró næst ekki með því að lesa loforð framboðanna til sveitarstjórnakosninga. Brátt verða vandamál ykkur leyst, er sagt í stórum auglýsingum. Treystið okkur og líf ykkar verður léttara. En hættan á vonbrigðum er stór því loforðin eru stór. Sveiflast milli loforða annarra um betra líf fyrir mig og mína! Ég verð að hafa stefnu í lífinu og vera viss um að það sem ég geri er rétt. Og vissan um hvert ég vilji stefna verður að vera innra með mér annars rek ég á reiðanum gegnum lífið eins og skip án stýris.
Ég mundi vilja sjá meiri sannfæringu einhverja sterkari vissu hjá veraldlegum leiðtogum okkar. Sterkari trú á því sem þeir eru að selja okkur. Málefni þessara kosninga verða trúverðugri ef sá/sú sem flytur hann er með þessa spegilsléttu tjörn innra með sér sem speglar sannfæringu út frá sér. Og grunnur allra hlýtur að vera sá sama og takmarkið það sama aðeins leiðin á milli skilur að. Það er nefnilega ferðalagið, leiðin sem er svo spennandi ekki endilega það að ná takmarkinu. Því takmarkið breytist jafnhliða því sem ferðalagið heldur áfram. Hver dagur er nýr grunnur og það sem var takmark gærdagsins er grunnur okkar að breytingum dagsins í dag.
Grunnur okkur er dagurinn í dag og takmarkið vonandi málefni eins og bílaminni/laus borg, grænni borg og meiri tími fyrir okkur að njóta lífsins saman. Ekki endilega með boðum og bönnum heldar frekar með bæn og skilning á þörfum okkar. Jafnvel færri sérbýli og fleiri leiðir til samneyslu og samkeyrslu. Og ekki síst er brýn þörf vegna geðheilsu okkar að endurskoða stofnanavæðingu samfélagsins. Ég vil ekki að besta úrræðið í gegnum lif mitt séu geymslustaðir af allskonar gerðum frá vöggu til grafar. Það má vera næstbest annað hlýtur að skipta miklu meira máli.
Mikið vildi ég óska þess að meiri grunnvinna hefði farið fram hjá flokkunum í framboði. Og að takmarkið væri kærleiksríkara og með sterkari boðskap um manneskjulegra samfélag.
Mér finnst allir eltast við að ná í atkvæði á kostnað kjósenda. Því við gleymumst! Græðgi og flótti frá þessari spegilsléttu innri tjörn er í algleymi. Og hraði alls í dag er ógnvænlegur.
Áttavitinn er úr lagi og við viljum ekki sjá það. En ég er viss um að sá dagur kemur þegar grillir í takmarkið aftur. Sem er einfaldlega þessi margnefnda spegilslétta sólríka tjörn innra með okkur.
Það er sólríkur dagur og ég er á leið út að njóta hans.
Trúmál og siðferði | Breytt 8.5.2006 kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2006 | 20:40
Kærleikurinn er stærstur.
Já hugleiddi þetta í dag. Upplifi tilgangsleysi við að lesa blöðin og fylgjast með þjóðfélagsumræðunni í sjónvarpinu. Flest allt sem er sagt og skrifað af þeim er eiga að leiða okkur inn í betri tíma er kallt mat og útreiknanlegt fyrirfram. Eins og vanti glóðina! Kærleikan! Eins og skorti getu til að tala frá hjartanu og láta heilan hvíla smástund. Auðvitað er ekki allt þannig en því miður að mestu leyti samt.
Ég er sannfærður um að ef við tökumst á við það sem við óttumst mest þá verður sigurinn stærstur. Mörg okkar óttast kærleikan og nándina meir en flest annað. Leyfa meðbræðrum sínum að sjá inn fyrir húðina. Svona gerir maður ekki er oft sagt við börn sem eru heiðarleg og einlæg í framkomu! Galsafengin og kát og óhrædd í einlægni sinni. Börnin treysta í byrjun eru einlæg og leita eftir vináttu þar til annað kemur í ljós.
Okkur fullorðnu finnst oft öruggast að byrja á vantraustinu og sjá svo til. Og yfirleitt komust við ekki lengra og búum okkur til örugga varnarhætti og skjól í vantraustinu. Afhverju er kærleikur og traust svo hættulegt og afhverju er svo lítið talað um það. Afhverju finnst mér kærleikurinn gera mig varnarlausan? Ætti að vera öfugt hann ætti að gera mig sterkari og betri til að lifa þessu daglega lífi. En samfélag hraðans má ekki vera að því að bíða kærleikans. Má ekki vera að því að rétta út höndina og fanga hann. Við reynum frekar að kaupa sálarró á raðgreiðslum! Ferðalag eða bíll eða flatskjá eða............................
allt nema staldra við og finna kærleikann innra með okkur. Finna einmitt núna þessa stundina þakklæti fyrir að vera Íslendingur og lifa og vera til í þessu yndislega landi.
Verð svo lúinn og gamall (ææ) þegar ég heyri bara um vísitölur og gengisrússibanan. Hrun á leiðinni eða ekki hvað með það? Ekki varð þetta til bara sísona afhverju leika hissa?? Er sannfærður um að þessi heimatilbúni vandi er heimatilbúinn. En það vilja þeir ekki sjá sem voru heima við Austurvöll eða í græðgisvæðingu erlendis að búa hann til! Benda á allt og ekkert og kenna hvort öðru um - lýsa yfir engilbleiku sakleysi sínu.
Afhverju? Já afhverju er þessi sífellda togstreita milli kærleikans og óttablandinnar græðginnar. Og vitum við ekki hver hefur yfirhöndina í dag?. Held að óttinn við að staldra við og skoða tilganginn með lifnaðarhætti stjórni okkur í dag þessi græðgisvæðing eigingirninnar. Breytum þessu tökum lífinu í hægðinni. Tyllum okkur niður tökum því rólega því við kaupum ekki hamingjuna sama hvað við getum hlaupið hratt eða getum borgað mikið fyrir hana. Hamingjan er ókeypis hún er allstaðar í kringum okkur umlýkur mig og umlýkur þig. Ég er þakklátur fyrir líf mitt í dag. Ekkert er eins og ég vildi hafa það en samt eins og það á að vera. Trúi því að allt sé fyrirframskrifað bara spurning hvort við rötum réttu leiðina.
29.4.2006 | 10:52
Trú mín og vissa og blaut rigning.
Uppeldi hefur mikil áhrif á afstöðu okkar til lífsins og hlutana í kringum okkur. Afhverju er rigningin blaut og mér sagt að passa mig á henni? Afhverju var Guð refsigjarn og ég smeykur við hann? Var þetta allt ásamt meiru bara troðið inn í mig af misvitrum fullorðnum einstaklingum? Er farinn að halda að líf mitt hafi orðið óþarflega erfitt vegna mannana orð við mig í gegnum árin. Allir sjálfsagt í góðri trú um sannleikan í orðum sínum. Og orð þessi voru stór og sönn fyrir barnið sem hlustaði.
Samfélagsleg áhrif skapa fordóma í gegnum þekkingarleysi og þegjandi samkomulag um að rugga ekki bátnum, segja ekki neitt! Ég gékk úr Þjóðkirkjunni þegar mér þótti stofnunin kirkjan gera mér lifið svo erfitt að ég sem hafði verið skírður og fermdur inn í hana gat ekki verið þar lengur. Líf mitt hafði breyst þegar tilfinningar mínar tóku stefnu í átt að kynbræðrum mínum. Úps þetta var bara ekki satt allt fór á hvolf! Ég dróst smátt og smátt inn í myrkrið því ljósið vildi mig ekki og hræddi. Og Guð sem átti að umbera allt og elska hann fordæmdi tilfinningar mínar. Ég var óhreinn! Samkvæmt uppeldislegri hefð.
En í dag veit ég betur. Kirkjan á ekki Guð! Mennirnir eiga ekki Guð! Guð er fyrir ofan allt elskar allt, umber og skilur allt. Guð er algóður faðir okkar allra. Ég trúi ekki í dag ég veit vissu mína. Veit að ég er Guði þoknanlegur og að hann elskar mig án allra skilyrða. Því skilyrðin um hverjir komast í ríki Guðs er mannana verk. Þeir skilyrða riki hans sem óhreinir eru og efast um skilyrðislausan kærleika hans. Efasemdarmennirnir verða að gera aðra óhreinni en þeir sjálfir. Útbúa V.I.P. forgangskort fyrir sig beint inn í himnaríki og draga aðra í dilka eftir eigin skilyrðum.
En ég trúi í dag á algóðan og skilningsríkan Guð sem sér allt, skilur allt og fyrirgefur allt. Mitt er ekki að dæmi mitt er að vera viss í trú minni á Guð. Bænin er mitt vopn ég bið fyrir þeim er fordæma mig því ég veit að það er vilji hans.
Í dag bið ég fyrir Kirkjunni sem í óöryggi sínu og ótta við álit fárra óhreinna og mikið leitandi manna afneitar lesbíum og hommum. Við erum öll börn Guðs. Öll án skilyrða um kynhneigð, kyn, litarhátt eða annað! Hvenær ætlar kirkjan að skilja það? Hætta að sortera og forgangsraða og opna faðm sinn? Ég trúi því er ég. 'Ég trúi því elska ég. Ég trúi án skilyrða og með opnu hjarta sé ég riki Guðs sem riki okkar allra. Ég trúi því að kirkjan vilji mig en þori ekki að elska mig eins og Guð gerir með sanni.
Ég bíð ekki lengur eftir samþykki eins né neins því ég veit að ég er elskaður sem skapaður af Guði.
Megi þessi rignardagur verða okkur öllum jafngóður.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)