Hver er Mér næstur? Ég, þú, það eða eitthvað óútskýranlegt annað?

Stórt spurt og í raun "einfaldara" svar en ég átti von á. "  Sagt er að "Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi" þetta voru orð Grettis Ásmundarsonar en einnig Kára um Björn í Mörk í Njáls sögu. Við virðumst lengi hafa hugsað djúpt og velt vöngum yfir því sem er erfitt að skýra í orðum heldur verður að finna hið innra með sér. 

Fór að hugleiða þetta þegar ég skrapp fyrir skömmu til fæðingarborgar minnar Stockhólms. Ef til vill vegna þess að þar var ég í fyrstu einn en upplifði samt ekki einmannaleika eins og oft áður í lífinu. Hvað hafði breyst?. Fannst skrítið að eiga ekki gáfulegt og einfalt svar því spurningin var einföld, afhverju leið mér "uppljómað" eins og lifandi í kærleika? Með í raun "ekkert" í kringum mig!

Ég byrjaði á því að skoða mitt veraldlega. Lítið hefur breyst síðustu ár. Á lítið veraldlegt sem meta má til fjár en skortir samt ekkert. Er það hugsanlega svarið eiga ekkert en skorta ekkert? Nei ekki alveg nóg og skýrt en samt hlaut það að vera hluti af svarinu?

Var alinn upp við að umgjörðin skipti í raun öllu.  Það sem þú sást var það sem ég og við vorum. Byggðist sjálfsmynd mín og það hver og hvað ég er upp á alla þessa ytri áherslu úr æsku minni? Hafði skort alla innri uppbyggingu?  Það að ég í sjálfum mér væri einhvers virði. Er að komast að því að þetta hafði gerst eins og sjálfvirkt í uppeldi mínu. Óviljandi, óvitandi hafði sjálfsmyndin og sjálfstraustið verið byggt upp á allt það ytra sjáanlega í umhverfi mínu. Það hafði gert mig að því sem ég var meðvirkur, óöruggur einstaklingur sem var alltaf í speglinum. Þarna hef ég lengi verið staddur með líf mitt, allt skal líta vel út fyrir umhverfið.  Eða er réttara að segja að fyrstu ár ævi minnar hafði gert mig að því sem ég var, þar til núna þennan nýjast liðna tíma í lífi mínu?

Þarna var ég í Stockhólmi einn og mér leið ágætlega og lífið gott! Upplifunin af þessu var sterkari en ég hafði getað ímyndað mér. Og upplifunin kom að innan ekki úr ytri aðstæðum það var það nýja og óvenjulega. Kærleikstilfinning streymdi um mig og fyllti mig af öryggi og vellíðan.  Var nema von að þetta gerði mig smá efins um að ég væri alveg í lagi.  Eitthvað hlaut eiginlega að vera að? Ákvað samt að njóta stundarinnar og lifa í þessum kærleika sem ég fann innra með mér. Gæti verið að ég væri á þessu augnabliki mér nálægur og næstur að einhverju eða mestu leyti?

Þegar ég skoða hvað hefur breytst síðustu ár er það augljóst að veraldlega hef ég jafnvel orðið fátækari.

Jafn augljóst er  að andlega og félagslega hef ég orðið ríkari. Það er meiri kærleikur, meiri nánd, meira frelsi, meiri gleði og meira af öllu því sem ég hér í Stockhólmi er að finna innra með mér og ég upplifi sem sátt og kærleika til sjálfs míns og umhverfisins.

Sjálfsvinnan er að skila árangri. Leitin inn á við til upphafsins eftir skilningi og trú á sjálfum mér er að skila sátt í augnabliki dagsins. Það sem ég skil núna er að innra með mér byr minn æðri máttur,  kærleikurinn þessi innri hlýja "brjóstbirta" sem ég finn innra með mér þegar mínum vilja er sleppt. Tilfinningin og upplifunin fyllir brjóst mitt af kærleika.  Kærleika til alls sem er og var því ég er í dag eins sáttur við fortíð og nútíð og ætla má. 

Þessi upplifun af sátt og kærleika til min og umhverfsins var að taka yfir og ýta út þessum yfirþyrmandi innri tómleika sem ég hafði lifað í áratugi og reynt að fylla af allskonar "fixi" ytri áferð, áfengi, mat, vinnu, tölvu og annarskonar öðru uppfyllingarefni. Það var í raun dýpst í sársaukfullum tómleika lífs míns sem ég hafði gefist upp og leyft þessu nýja að taka við og breyta öllu sem mér í æsku hafði verið kennt að væri ég. Stíga út úr þægindarammanum sem var í raun eins og fangelsi og breyta í trausti þess að hinum meginn við sársaukann biði mín í óþolinmæði hinn raunverulegi ég og kærleikurinn til lífsins.

Það er þessi nýi ég sem sit hér í Stockhólmi sáttur við sig og umhverfið. Þarna hinum meginn við sársaukann beið ný fjölskylda og nýtt fólk í nýju umhverfi sem allt skiptir mig miklu máli. En upprunafjölskyldan er og verður alltaf þarna og ekkert fær því að ég finn breytt.  

Ég er þakklátur fyrir að hafa á fullorðinsárum náð að þiggja lífið að gjöf. Það er ekki sjálfgefið að það gerist og þegar sátt og kærleikur er allt umlykjandi þá er gott að lifa. Ég mæli með þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband